Háskólatónleikar halda áfram: Dymbrá leikur 11. nóvember

Háskólatónleikaröðinni var ýtt úr vör í endaðan október með glæsilegum streymistónleikum djassgítarleikarans Mikaels Mána og sveitar hans (sjá: https://youtu.be/130p90dsykM). Röðin heldur áfram í miðvikudagshádeginu 11. nóvember en þá mun ungsveitin Dymbrá koma fram í Hátíðasal Aðalbyggingar kl. 12.15. Tónleikunum verður streymt í ljósi yfirstandandi samfélagshamlanna og salurinn verður tómur, utan tæknifólks og tónlistarmanna. Hægt verður að horfa á beint en einnig að njóta síðar í upptökuformi. Allir velkomnir og aðgangur gjaldfrjáls.

Hér verður hægt að nálgast streymi frá tónleikunum: https://livestream.com/hi/dymbra

Viðburður á FB: https://www.facebook.com/events/682417065992452

Dymbrá vakti verðskuldaða athygli á Músíktilraunum 2018 en þær Nína Solveig Andersen, Eir Ólafsdóttir og Eyrún Úa Þorbjörnsdóttir skipa sveitina. Eir leikur á selló, Nína á fiðlu og Eyrún á flautu en mörg önnur hljóðfæri eru brúkuð. Meðlimir eru nú, tveimur árum síðar, ekki nema átján ára en hafa þegar gefið út burðuga plötu sem inniheldur dökkleita og draumkennda kammertónlist. Falleg, þjóðlagabundin ára leikur um hana og lög eru brotin upp óhikað með rafstemmum og öðru slíku skrauti, tilraunamennska í hávegum höfð á sama tíma og byggingu og melódíum er haldið. Stemningin er hreint út sagt ævintýraleg á köflum (platan er á Spotify og Bandcamp).

Um áratugabil, og raunar í hálfa öld, hefur það verið hefð í Háskóla Íslands að standa fyrir svofelldum Háskólatónleikum. Um mánaðarlega viðburði er að ræða, á haust- og vorönn, og fara þeir fram í byggingum háskólans. Nýr umsjónarmaður tónleikaraðarinnar og listrænn stjórnandi er Dr. Arnar Eggert Thoroddsen og segist hann styðjast við slagorðið „Háskóli fyrir alla – Tónlist fyrir alla“ á þessum komandi vetri. Fólk geti búist við tónlist sem tilheyri alls kyns geirum, svosem poppi/rokki, djass, klassík og bara því sem álitlegt þykir hverju sinni. Hin vel þokkaða sveit Umbra mun síðan flytja jólatónlist með sínu annálaða nefi í desember, í hinni fögru Háskólakapellu.

Auglýsing

læk

Instagram