Heillar rómantíkerinn að skapa og skrifa

Auglýsing

Kristján Hafþórsson er jákvæður maður að eðlisfari og segist ávallt reyna að sjá glasið hálffullt frekar en hálftómt. Hann missti föður sinn 15 ára og segir áfallið hafa mótað sig og lífsviðhorf sitt. Kristján setur fjölskylduna í forgang í lífinu, en sinnir jafnframt sjálfum sér, áhugamálum og vinnu í bland. Rauði þráðurinn í gegnum allt er samskipti við fólk og að miðla jákvæðni og hvatningu.

Kristján vinnur hjá auglýsingadeildinni á Sýn og hefur unnið við sölu auglýsinga í nokkur ár. Hann er einnig með eigið hlaðvarp, Já-kastið og í aukaverkefnum á Sýn. „Þetta er gefandi starf fyrir mig og ég þrífst vel í því að vera með nokkra bolta á lofti, að vinna við það sem ég elska. Ég er í draumastarfinu og er mjög þakklátur,“ segir Kristján. „Ég datt inn í sölubransann 2016, pabbi heitinn var hörkusölumaður og kannski er ég með þetta í blóðinu. Þegar ég kom inn í fjölmiðlaumhverfið í fyrsta sinn þá þurfti ég líka að játa mig sigraðan, það er svo skemmtilegt að vinna í fjölmiðlum.

Þetta er brot úr lengra viðtali sem aðgengilegt er á vef Birtings.

Sölustarfið er í grunninn mjög skapandi starf, maður þarf að vera hugmyndaríkur og lausnamiðaður og það hentar mér mjög vel. Ég tel mig líka sterkan í mannlegum samskiptum og ég hef ekkert litið til baka síðan ég kom í þetta starf,“ segir Kristján sem hefur unnið á DV, K100 og Sýn.

Auglýsing

Aðspurður um hvort hann hafi ekki getað hugsað sér að fara í kennaranám segist Kristján ekki útiloka slíkt nám. „Ég ætla aldrei að loka á neitt af því ég er alveg til í að taka kennsluréttindin einhvern tíma og miðla gleðinni áfram, ekki spurning. Ég er enn í háskóla og að gera upp við mig hvað mig langar að læra. Ég er búinn með nokkuð margar einingar í félagsfræðinni, en er að velta fyrir mér hvort ég eigi að halda áfram í því námi eða gera annað. Ég er ekkert að flýta mér að ákveða mig, ég er á því að allt eigi sinn tíma. Ég er rétt rúmlega þrítugur. Það er allt í lagi að taka nám seinna og bara þegar maður er tilbúinn í það. Aðstæðurnar hjá fólki þegar kemur að því að velja nám eru mismunandi, fólk hefur ekki tíma fyrir nám, er ekki tilbúið í það eða annað. Það þarf ekki allt að gerast einn, tveir og bingó og ég er bara enn að átta mig á hvað ég vil gera þegar ég verð stór,“ segir Kristján og hlær.

„Ég er þakklátur fyrir mína vegferð, að hafa prófað mörg störf, og finnst ég hafa fundið mína fjöl í sölumennskunni sem mér finnst mjög skemmtileg, og í dagskrárgerðarhlutanum, og sé mig fyrir mér áfram í þessu tvennu. Það heillar rómantíkerinn sem ég er að skapa og skrifa.“

„Ég tala við alls konar fólk og vil ræða við fólk, hvort sem það er þekkt eða ekki, sem er með hugmyndir um jákvæðni, hefur upplifað breyskleika, fundið drifkraftinn. Ég tel að við séum öll með hugrekki og hæfileika innra með okkur, bara spurning hvenær það kemur fram.“

 

Texti: Ragna Gestsdóttir
Aðalmynd: Helgi Ómarsson
Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram