Hlakkar til að stinga sér í jólabókaflóðið

Bergþóra Snæbjörnsdóttir er rithöfundur og skáld sem gaf út sína fyrstu skáldsögu, Svínshöfuð, árið 2017. Bók hennar naut mikilla vinsælda og hlaut Bergþóra Fjöruverðlaunin fyrir hana. Hún var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Auk þess er Bergþóra partur af gjörningatvíeykinu Wunderkind collective, ásamt Rakel McMahon myndlistarkonu, þar sem þær takast á við mannlega tilvist á súrrealískan hátt. Bergþóra er búsett í Reykjavík en ólst upp á sveitabænum Úlfljótsvatni í Grafningi.

Hvaða bók er á náttborðinu þínu núna?
„Ég veit að Amazon er hræðilegt fyrirtæki en kindillinn er yfirleitt á náttborðinu eða á gólfinu við hliðina á rúminu hjá þriggja ára syni mínum þar sem ég sef svona aðra hverja nótt. Með kindlinum get ég lesið í myrkrinu og er yfirleitt með nokkrar bækur í gangi. Um þessar mundir er ég til dæmis að lesa Dance, dance, dance eftir Murakami og Earthlings eftir Sayaka Murata.“

Hvaða bók lastu síðast og hvað fannst þér um hana?
„Síðasta bók sem ég kláraði var The Wasp Factory eftir Iain Banks. Mér leið ömurlega allan tímann sem ég las hana en þannig vil ég helst hafa bækur. Ég er sammála Kafka sem sagði að við ættum bara að lesa bækur sem særa eða stinga okkur. Að þær ættu að vekja okkur eins og höfuðhögg.“

Ertu með einhverja bók í sigti sem þú getur ekki beðið eftir að lesa?
„Ég er spennt að komast í allar íslensku bækurnar fyrir þessi jól, þetta verða stór skáldsögujól og ég hlakka til að stinga mér í jólabókaflóðið.“

Áttu þér uppáhaldsbók eða bók sem þú lest aftur og aftur?
„Þær bækur sem ég les aftur og aftur eru helst ljóðabækur. Þegar ég var unglingur las ég Hundrað ára einsemd eftir Gabríel García Marques ábyggilega svona fjórum sinnum og þegar ég var enn yngri, bara barn, var ég sjúk í að lesa Ilminn eftir Patrick Süskind þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mömmu til að fela hana. Ég las líka Þrúgur reiðinnar eftir Steinbeck oft og mörgum sinnum og grét í hvert skipti og Dýragarðsbörnin, sem mamma hefði líklega frekar átt að fela.“

 

Texti: Anna Lára Árnadóttir

Auglýsing

læk

Instagram