Hlutirnir gerðust hratt á stuttum tíma

Diljá Mist Einarsdóttir settist á þing fyrir rúmu ári síðan og segir þingmennskuna ekki svo frábrugðna lögmannsstarfinu sem hún gegndi áður. Hún hafi „auðvitað“ verið búin að vinna við það í fleiri ár að rífast við fólk, eins og hún segir sjálf, færa rök fyrir máli sínu og undirbyggja og undirbúa málin sín vel. Diljá segist vera þeirrar skoðunar að maður eigi að njóta á meðan maður getur því maður lifi bara einu sinni. Hér ræðir hún meðal annars þingmennskuna, jólahaldið og áfallið sem það var að missa systur sína fyrir fimmtán árum síðan.

Það er stund á milli stríða á alþingi þegar blaðamaður mætir þangað dag einn um miðjan nóvember. „Ég þarf að skjótast á eftir til að taka þátt í einni atkvæðagreiðslu en það ætti ekki að taka langan tíma,“ segir Diljá og býður blaðamanni til sætis í litlu herbergi inn af matsal alþingis. Blaðamaður gæðir sér á heitri rabarbaraböku, þeirri allra bestu sem hann hefur smakkað, sem starfsfólk mötu-neytisins bakaði. Diljá viðurkennir að hún sé mikill gikkur þegar kemur að mat og ákaflega matvönd, en hún samsinnir blaða-manni varðandi rabarbarabökuna. „Ef ég gæti ráðið þá myndi ég bara alltaf borða ristað brauð og drekka kók. En ég er með mígreni svo það er einfaldlega ekki í boði. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að maður eigi bara að njóta á meðan maður getur því maður lifir bara einu sinni.“ Og á það var Diljá minnt harkalega fyrir rúmum fimmtán árum síðan.

Diljá er fædd árið 1987, næstelst fjögurra systkina. Eldri systir hennar, Susie Rut, var tveimur árum eldri en aðeins eitt ár var á milli þeirra í skóla. Diljá segir þær systur hafa verið mjög nánar og miklar vinkonur. „Að mörgu leyti vorum við gjörólíkar en á sama tíma líka svo líkar, við deildum herbergi og vorum í sama vina-hópi og í raun bara óaðskiljanlegar. Hún byrjaði að fikta við fíkniefni undir lok grunnskólans, en ég vissi ekki af því, svo fór hún í Menntaskólann í Reykjavík og þá, eins og gengur þegar fólk fer í menntaskóla, kynntist hún nýjum krökkum og var komin í annan félagsskap, farin að fara á menntaskólaböll og ekki lengur alltaf með mér og vinum okkar. Maður áttaði sig ekkert á því að eitthvað væri í gangi, það að fara á böll og vera mikið með vinum er eðlilegasti hlutur í heimi þegar maður er í menntaskóla. Síðan gerast hlutirnir bara mjög hratt á stuttum tíma og Susie náði botninum mjög fljótt. Þetta er hefðbundin ömurleg neyslusaga en kannski óvenjuleg að því leyti hvað þetta gerðist allt hratt; Susie var bara í neyslu í tæp tvö ár og fór aðeins í tvær meðferðir þannig að maður var bjartsýnn á að þetta yrði í lagi þegar hún komst út úr neyslunni. Hún náði sér vel á strik í nokkur ár og var í rosalega miklum bata, lét gott af sér leiða og hjálpaði mjög mörgum sem við fjölskyldan erum í sambandi við enn þann dag í dag, fólk sem þakkar henni sína lífsbjörg.“

Það sem átti að bjarga lífi hennar varð hennar bani Susie hafði farið til Mexíkó til að læra spænsku áður en hún færi í frekara nám, hana langaði að verða læknir. Þegar heim var komið var hún með alvarlega sýkingu og þurfti að leggjast inn á spítala. Diljá segir veikindin hafa verið alvarleg með endurteknum áföllum. „Hún var alveg ofboðslega veik og ég man eftir því að hún var send með sjúkrabíl upp á spítala. Hún fór á mikla og stranga sýklalyfjameðferð og varð líka að fá sterk verkjalyf og þarna var hún bara fallin.“ Diljá þagnar um stund áður en hún heldur áfram: „Þarna var auðvitað verið að bjarga lífi hennar en þetta varð svo hennar bani.“

„Maður þarf ekki að geyma allt fyrir minningargreinar“

Diljá segir að fjölskyldan hafi trúað því að allt færi vel og að stuttum en erfiðum kafla myndi ljúka með því að Susie færi í afeitrun strax að spítaladvölinni lokinni. Í minningargrein í Morgunblaðinu skrifaði faðir hennar:

„Í næsta herbergi var „sjúklingur“. Hann fór að hafa ofan af fyrir Susie Rut með sögum. En ekki er allt sem sýnist. Tíminn langi á spítalanum var á enda. Susie Rut var aðframkomin og pantaði dvöl í afeitrun. [ … ] Það voru vonbrigði fyrir okkur og hana þegar í ljós kom að stofnunin, þar sem hún hafði unnið svo mikið og gott sjálfboðastarf, hætti við að leggja hana inn þar eða hún þyrfti áframhaldandi sýklalyfjameðferð í æð tvisvar á dag, þótt LSH teldi því ekkert til fyrirstöðu. Þrátt fyrir þetta reiðarslag var engan bilbug á henni að finna. [ … ] Aðfaranótt laugardags sjást tvö símtöl hringd til Susie Rutar frá skemmtilega manninum í næsta herbergi. Henni hefur svo verið afhentur ofurskammtur eiturlyfja sem var líkama hennar, án eiturlyfja í næstum 4 ár, um megn.“
(Morgunblaðið, 26. júní 2007)

„Þegar hún féll gerðist það skyndilega,“ segir Diljá. „Ég heimsótti hana ekki aftur á sjúkrahúsið eftir að ég áttaði mig á stöðunni og ég var henni sár og reið, ég skildi ekki hvers vegna hún gat ekki bara hætt eftir að veikindin minnkuðu. Ég veit í dag að þetta eru mjög algeng viðbrögð aðstandenda, það er manni eðlislægt að flokka fíknisjúkdóm öðruvísi en aðra sjúkdóma, eins og til dæmis krabbamein. Fíknisjúkdómur er öðruvísi, hann nærist á einhverju, þótt fljótt á litið geti maður réttlætt það fyrir sér að flokka hann sem öðruvísi sjúkdóm þegar þú horfir á hann utan frá en þá er maður kominn á hættulegan stað. Þetta gerði það að verkum að ég skildi ekki í góðu við systur mína, ég fékk aldrei tækifæri til þess að ræða við hana og það hefur gert það að verkum að ég hugsa að maður geti aldrei gert ráð fyrir því að fá annan dag í viðbót til að sætta mál eða segja hug sinn. Þetta var ofboðslega dýrmæt en dýrkeypt lexía. Maður þarf ekki að geyma allt fyrir minningargreinar.“

Viðtalið við Diljá má finna í heild sinni á vef Birtings.

Auglýsing

læk

Instagram