Í dag eru tíu ár síðan skýrslan „Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina“ kom út

Í dag eru 10 ár síðan skýrslan “Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina” kom út.   

Með rannsókninni var leidd fram í dagsljósið áður ókönnuð stoð undir atvinnulíf þjóðar en um leið ítrekað að menning og listir hafa óáþreifanlegt gildi sem aldrei verður metið til fjár 

Það var vitað árið 2011 að atvinnugreinar menningar höfðu sótt í sig veðrið en það sem kom á óvart var hversu stór hlutur þeirra var í atvinnu- og efnahagslífi Íslendinga. Á þeim áratug sem er liðinn hefur vegur íslenskra listamanna og fyrirtækja í skapandi greinum aukist, hvort sem við lítum á verðlaunaafhendingar sem mælikvarða eða erlendar fjárfestingar.    

Atvinnuvegur í sókn    

Á þessum tímamótum vitum við að skapandi greinar eru í sókn og störfum hefur fjölgað jafnt og þétt. Rannsóknir erlendis sýna að skapandi greinar vaxa hraðar en aðrar atvinnugreinar, eru sveigjanlegri m.a. á krepputímum, og skapa virðisauka innan annarra greina. Listir og skapandi greinar leika einnig stórt hlutverk í þeim breytingum sem fjórða iðnbyltingin kallar á. Þær skapa inntak fyrir tækninýjungar.   

Við vitum að um 15.000 manns starfa í atvinnugreinum menningar og við vitum að aukinn árangur í útflutningi á afþreyingar- og menningarefni er að búa til aukna veltu.   

Rannsóknir eru nauðsynlegar   

Á Íslandi skortir okkur hins vegar tilfinnanlega rannsóknir á bæði hagrænum og félagsfræðilegum þáttum og listrænum áhrifum menningar 

Fyrir áratug stóðu vonir til þess að krafti yrði hleypt í rannsóknir og kerfisbundna tölfræðisöfnun. Það var ákall eftir því að þessi nýskilgreindi atvinnuvegur fengi stuðning við rannsóknarmiðstöð eins og aðrir atvinnuvegir í landinu. Það hefur enn ekki gengið eftir en jarðvegurinn er til staðar.    

Afmælisgjöfin   

Núverandi ríkisstjórn setti sér skýr markmið um að efla listir og skapandi greinar í stjórnarsáttmála sínum. Hún hefur eflt Hagstofu Íslands til að vinna að útgáfu hagvísa atvinnugreina menningar. Útgáfa nýrrar kvikmyndastefnu 2020 – 2030 var til fyrirmyndar. Margar fleiri aðgerðir hafa verið ræddar og vonandi verða sem flestar þeirra að veruleika áður en kjörtímabilið er úti. Háskólinn á Bifröst í samstarfi við Listaháskóla Íslands, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Samráðsvettvang skapandi greina og Bandalag íslenskra listamanna sendu nýverið frá sér tillögur til mennta- og menningarmálaráðherra um að koma á rannsóknar- og þekkingarsetri um skapandi greinar. Það væri verðug gjöf til þjóðar á 10 ára afmæli kortlagningarinnar sem vísað er til hér í upphafi. Látum ekki annan áratug líða án öflugs rannsóknarumhverfis sem getur hjálpað til við að marka stefnu og taka upplýstar ákvarðanir. 

Auglýsing

læk

Instagram