Iceland Airwaves kynnir: Live From Reykjavík, laugardaginn 6. nóvember!

ICELAND AIRWAVES TILKYNNIR ENDURKOMU LIVE FROM REYKJAVÍK, LAUGARDAGINN 6. NÓVEMBER.

FJÓRIR TÓNLEIKASTAÐIR Í MIÐBÆ REYKJAVÍKUR OG Í BEINU STREYMI UM ALLAN HEIM.
icelandairwaves.is/live

Árný Margrét, Aron Can, Ásgeir, Bríet, BSÍ, Reykjavíkurdætur, Emmsjé Gauti, Flott, GDRN, Gugusar, Hipsumhaps, Inspector Spacetime, Júníus Meyvant, John Grant, Laufey og Red Riot.

1 kvöld | 4 staðir | 16 bönd

Beint streymi frá kl. 20.00 og aðgengilegt í sólarhring.
Lifandi tónleikar með tónleikagestum á fjórum stöðum í Reykjavík.
Hlustaðu á Live From Reykjavík lagalistann hér

Laugardaginn 6. nóvember mun Iceland Airwaves endurtaka Live From Reykjavík. Að þessu sinni verður tónleikaveislan ekki aðeins í streymi heldur líka með tónleikagestum á fjórum stöðum: Iðnó, Gamla bíói, Gauknum og Fríkirkjunni. Streymi frá öllum fjórum tónleikastöðunum verður í beinni um allan heim og aðgengilegt í 24 klukkustundir eftir að dagskrá lýkur.

Live From Reykjavík árið 2020 naut mikilla vinsælda og hlaut mjög jákvæða umsögn áhorfenda og tónlistarbransans. Tónlistartímaritið NME sagði viðburðinn hafa ‘sett ný viðmið fyrir beint tónleikastreymi þar sem bæði nýliðar og þekktir flytjendur sýndu listir sínar á óviðjafnanlegan hátt.’

Sama verður uppi á teningnum í ár þar sem fram koma alþjóðlega þekktir flytjendur í bland við upprennandi stjörnur íslensks tónlistarlífs. Ásgeir mun koma fram ásamt hljómsveit í Gamla bíói og John Grant tekur sér hvíld frá Evrópuferðalagi sínu og mun spila í Fríkirkjunni við píanóundirleik. Ásamt Ásgeiri í Gamla bíói munu á sviðið stíga GDRN, Bríet og nýliðarnir í Flott sem tekið hafa árið 2021 með trompi.

Júníus Meyvant og Árný Margrét munu koma fram í Fríkirkjunni ásamt John Grant, auk þess sem Laufey heldur sína fyrstu tónleika á Íslandi en hún hefur heillað þúsundir manns um heim allan að undanförnu með jazzkenndri lagasmíð sinni frá New York.

Í Iðnó munu Emmsjé Gauti og Aron Can stíga á stokk ásamt Hipsumhaps og Red Riot og á Gauknum koma fram Reykjavíkurdætur, Inspector Spacetime, nýstyrnið Gugusar og dúettinn BSÍ sem er nýkominn heim af tónleikaferðalagi um Bretland ásamt hljómsveitinni The Vaccines.

Miðasala á Live From Reykjavik 2021 hefst á Tix.is/lfr miðvikudaginn 20. október kl. 10. Miðaverð inn á tónleikastaðina er 4.990 kr. Vegna sóttvarnartakmarkana geta tónleikagestir ekki farið á milli tónleikastaða, þannig að hver miði gildir á aðeins einn tónleikastað. Gestir velja þá dagskrá og þann tónleikastað sem þeim líst best á. Athugið að mjög takmarkað magn miða er í boði inn á hvern tónleikastað. Þeir sem kaupa miða inn á einn af tónleikastöðunum fá streymismiða í kaupbæti sér að kostnaðarlausu.

Streymismiði kostar 2.990 kr og veitir aðgang að allri dagskrá kvöldsins í gegnum Nova TV appið. Áhorfendur geta skipt að vild á milli tónleikastaðanna fjögurra á meðan beinu útsendingunni stendur og geta svo horft aftur að vild í 24 klukkustundir eftir að dagskrá lýkur.

Um sérstök forsöluverð er að ræða á öllum miðatýpum og munu verð hækka þegar nær dregur. Verður það tilkynnt með fyrirvara hvenær verðin hækka og hversu mikið. Það er því um að gera að tryggja sér miða strax.

Nánari upplýsingar á www.icelandairwaves.is/live

Auglýsing

læk

Instagram