Jólabarn í miðbænum: „Stressa mig lítið á undirbúningnum“

Einn góðan haustdag kíkti blaðamaður Húsa og híbýla við í heimsókn í fallega íbúð í vesturhluta miðbæjar Reykjavíkur. Þar býr Ragnar Sigurðsson, innanhússarkitekt FHI og einn þáttarstjórnanda Bætt um betur sem hóf göngu sína á Stöð 2 í vor. Ragnar hefur búið í íbúðinni síðastliðin þrjú ár og unnið hörðum höndum að því að gera hana að sinni. Útkoman er alveg frábær enda Ragnar mikill fagurkeri og með eindæmum smekklegur.

Aðspurður segir Ragnar að ráðist hafi verið í töluverðar breyt­ingar á eigninni strax í upphafi. Eldhúsið var fært úr litlu forstofuherbergi inn í aðra stofuna. Íbúðin var þannig hönnuð að stofurnar voru stórar og restin fékk að mæta afgangi eins og tíðkaðist á þeim tíma sem húsið var byggt. Það sem heillaði við eignina var lofthæðin sem er meiri en gengur og gerist, upprunalegir skrautlistar í loftum og hurðirnar sem einnig eru upprunalegar. „Um leið og við skoðuðum eignina sáum við möguleikana í henni. Með því að færa eldhúsið inn í aðra stofuna og hafa þar samliggjandi eldhús, borðstofu og stofu með fallegri rennihurð á milli.“

Þegar komið er inn tekur við gangur sem vísar í önnur rými íbúðarinnar. Þar eru tvö samliggjandi rými; eldhús og stofa, bað­ herbergi og tvö önnur svefnherbergi, en annað svefnherbergið var áður eldhús. Þegar ég spyr Ragnar hver stíllinn sé vitnar hann í Wabi sabi. Upprunalega frá Japan, þar sem sést að hlutirnir eru notaðir, náttúruleg form og áferð. Þannig náist að blanda saman nýjum hlutum við þá gömlu í hönnuninni en tekið mikið tillit til þess sem fyrir er. „Það er svo mikil fegurð í ójöfnum formum og hlutum með sögu,“ segir Ragnar. Íbúðin er kalkmáluð í náttúrulegum litum og loftin máluð með vatnsmálningu, einnig í náttúrulegum litum. Þannig næst að tvinna saman þetta nýja og gamla svo lítið beri á. Það sem gerir heimilið að heimili er sambland af því sem vekur hjá okkur vellíðan. „Sem er fólkið sem þú býrð með eða færð í heimsókn, orkan í húsinu, lyktin, það sem þú sérð og hvernig þú sefur,“ segir Ragnar og bætir við, „mér finnst einnig gott að hver hlutur eigi sinn stað og að ég geti gengið að þeim vísum.“

„Ég er mikið jólabarn en stressa mig lítið á undirbúningnum.“

LITAPALLETTA Í KRINGUM ÍBÚÐINA

Húsið sem er byggt í kringum 1930 stendur við rólega götu. „Þetta er mjög gott og rólegt hverfi en þó stutt í miðbæinn og flest er í göngufæri. Göngu­ túrar um hverfið eru í miklu uppáhaldi hvort sem er um hásumar eða kósí kvöldganga að vetri til. Það er svo mikið af sögulegum byggingum og menningar­ minjum hér í hverfinu,“ bendir Ragnar á og nefnir að þetta hafi einnig heillað hann við eignina.

Gaman að segja frá því að Ragnar og Kári Sverrisson gerðu litapallettu í kringum íbúðina í samstarfi við Sérefni þar sem þemað er kaffi.

Uppáhaldsrýmið heima segir Ragnar vera eldhúsið. „Það er í Shaker­stíl og er borðstofan þar inni, opið er inn í stofu, við höfum átt margar gæðastundir þar, spjallað og eldað.“

Fljótlega eftir stúdentspróf flutti Ragnar til Barse­lóna þar sem hann bjó um árabil og stundaði nám í innanhússarkitektúr. Hann segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á hönnun og listum og ákveðið ungur að læra eitthvað tengt því. Eftir námið flutti Ragnar svo heim til Íslands þar sem hann hefur starfað sjálfstætt sem innanhússarkitekt og rekið eigið hönnunarstúdíó. Ragnar hefur hannað fjölda heimila, veitingastaði og skrifstofur, svo fátt eitt sé talið.

Hvað ertu að bardúsa þessa dagana? „Ég er mikið í því að hreyfa mig en ég myndi segja að rútína ein­ kenni flesta daga núna þar sem ég þarf að koma miklu fyrir yfir daginn hjá mér og skipuleggja mig vel. Það er svo gott að vakna á morgnana og vera með daginn planaðan. Ég er líka svo heppinn að vinnan mín er á sama tíma áhugamál mitt. Mörg spennandi verkefni eru í gangi hjá mér og margt skemmtilegt fram undan. Ég á líka önnur áhugamál og ætla að reyna að ná allavega einni helgarferð fyrir jólin. Ná þannig að slaka aðeins á og fá smávegis innblástur fyrir komandi verkefni.“

„Mér finnst einnig gott að hver hlutur eigi sinn stað og að ég geti gengið að þeim vísum.“

Ertu mikið jólabarn og hvenær byrjar undirbúningurinn? „Ég er mikið jólabarn en stressa mig lítið á undir­ búningnum. Mér finnst gott að vera í rólegu flæði og það þarf alls ekki allt að vera fullkomið, þetta snýst um að njóta og ég er alveg ágætur í því. „Það eru alltaf jólin hjá þér,“ er setning sem mamma sagði stundum við mig þegar ég var yngri, það á vel við þegar ég hugsa út í það. Bara njóta með vinum mínum og fjölskyldu. Hingað til hafa jólin bara alltaf komið og ég held að það verði engin breyting þar á, hvort sem við stressum okkur eða ekki. Fyrir mér eru jólin djúpslökun og gæðastundir.“

Heldur þú í hefðir? „Nei, ekki nema bara það allra venjulegasta, annars hef ég þetta bara frjálst og er opinn fyrir nýjungum og alltaf til í að prófa eitthvað nýtt.“

Uppáhaldsskrautið? „Það er konfektskál sem foreldrar mínir eiga. Hún er jólasveinn, sofandi í rúmi, og ef
þú lyftir upp dýnunni er hún troðfull af sælgæti. Mér leiddist það ekki þegar ég var yngri og á skemmtilegar minningar um hana. Annars er ég ekki mjög tengdur dauðum hlutum, finnst skemmtilegra að tengjast fólki. Jólatréð fer svo upp seint í desember og er skreytt kvöldið fyrir Þorláksmessu.“

Áttu ráð fyrir okkur hin? „Ráð fyrir þessi jól er að vera með lifandi greni og mikið af því, dökkrauð kerti og einfaldleika. Njóta með fólkinu ykkar og hvílast vel, það er svo gott að fara inn í nýtt ár eftir góð jól.“

Umsjón/ Bríet Ósk Guðrúnardóttir
Myndir/ Hallur Karlsson

Upphaflega birt í tímariti Húsa og híbýla og má finna einnig á vef Birtings.

Auglýsing

læk

Instagram