Leyniþjónustan opnar í Midpunkt

Leyniþjónustan er fyrsta einkasýning Rúnars Arnar Jóhönnu Marinóssonar. 
Sýningin opnar í Midpunkt þann 31. október næst komandi. Vegna heimsfaraldurs verður opnun með lengra lagi svo gestir sýningarinnar geti dreift veru sinni út daginn. 
Rúnar Örn verður með opnun frá 12 -19 á sjálfri Hrekkjavökunni, sem er skemmtileg tilviljun þar sem óeðlilegum, dularfullum, yfirnáttúrulegum, undarlegum og óstýrilátum fyrirbærum mun bregða fyrir á sýningunni Leyniþjónustan.
Sýningin Leyniþjónustan eða Secret Services er um skáldaða óopinbera stofnun, eins konar sálríkislögreglu, sem gegnir því hlutverki að rannsaka og útrýma óeðlilegum, dularfullum, yfirskilvitlegum, undarlegum og óstýrilátum fyrirbærum. Hvað flokkast sem slíkt getur verið erfitt að segja til um en hér virðast einhverskonar draugar vera á kreiki. Draugar geta átt sér ýmsan mismunandi uppruna, gleymd minning, miseftirminnileg atvik, slæm hugmynd, óþörf manneskja, jörðuð tilfinning. En óvíst er hvort þörf sé á að örvænta, Leyniþjónustan tekst á við hið torskiljanlega svo við þurfum ekki að gera það. Á þessari sýningu má líta niðustöðulausar rannsóknir hins óopinbera og þar eru til sýnis ýmis sönnunargögn, tæki og tól sem stofnunin hefur sankað að sér og notað í gegnum tíðina.
Sannleikurinn er úti.
 
Listamaðurinn Rúnar Örn Jóhönnu Marinósson útskrifaðist með BA gráðu frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2016 og hefur síðan þá sýnt á ýmsum samsýningum á Íslandi og erlendis, en þetta er hans fyrsta einkasýning. Í verkum sínum notar hann ýmsa miðla til að skoða hinar ýmsu tilraunir manneskjunar til að skilja og hafa stjórn á veruleika sínum og annarra, bæði innri og ytri.
Auglýsing

læk

Instagram