Lokuðu einum veitingastað tímabundið

Í tilkynningu frá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu segir að loka hafi þurft einum veitingastað í gærkvöldi vegna brota á tilmælum um sóttvarnir og tveggja metra reglu. Farið var inn á þrettán staði og á þessum tiltekna stað voru aðstæður óviðunandi með öllu.

„Of margir voru inni á staðnum, miðað við stærð hans og skort á sóttvarnarskipulagi, og alls ekki tveggja metra bil milli gesta. Grípa þurfti til þess ráðs að loka staðnum tímabundið og vísa gestum út af staðnum. Skýrsla verður sömuleiðis rituð á brotið,“ segir í tilkynningunni.

Alls þurfa sjö staðir, af þeim sem heimsóttir voru í gærkvöldi, að gera úrbætur og bæta skipulag sitt.

„Líkt og fyrri daginn voru fáir inni á þessum stöðum þegar lögregla leit við. Starfsmönnum þessara staða voru veittar ráðleggingar um hvernig mætti gera betur. Einn staður hafði ekki gert viðunandi ráðstafanir til að tryggja sóttvarnir og tveggja metra reglu á tilteknu svæði, en þar var tveggja metra regla alls ekki virt. Ráðstafanir voru gerðar tafarlaust. Skrifuð verður skýrsla á brotið.“

Í tilkynningunni segir einnig að fjórir staðir hafi verið með sín mál í góðu standi og þar af tveir til mikillar fyrirmyndar.

Auglýsing

læk

Instagram