Auglýsing

MAMMÚT GEFUR ÚT BREIÐSKÍFUNA ‘RIDE THE FIRE’ Í DAG

MAMMÚT gefur út breiðskífuna  Ride the Fire í dag. Áður hafa smáskífurnar  „Pow Pow“, ‘Prince’, ‘Sun and Me’ og ‘Fire’ komið út og fengið mikið lof frá fjölmiðlum á borð við KEXP, Line of Best Fit og The Reykjavík Grapevine. Ride the Fire kemur út í dag á öllum helstu tónlistarveitum og í betri plötubúðum en platan kemur út á vínyl þann 10.nóvember.

Ride The Fire var tekin upp á Íslandi og London af Árna Hjörvari. Sam Slater hljóðblandaði plötuna en hann hefur meðal annars unnið með Hildi Guðnadóttir og upptökustýrt tónlistinni fyrir ‘Joker’ og ‘Chernobyl’. Mandy Parnell, sem hefur meðal annars unnið með Björk og Sigur Rós sá síðan um hljóðjöfnun.

Ride The Fire er fyrsta útgáfa hljómsveitarinnar síðan platan Kinder Versions kom út árið 2017. Sú plata var tilnefnd til sex verðlauna á íslensku tónlistarverðlaununum það árið og hlaut þrjú þeirra. Katrína, Alexandra og Arnar stofnuðu MAMMÚT sem unglingar árið 2003 og fljótlega bættist Ása Dýradóttir í hópinn. Trommuleikarinn Valgeir Skorri Vernharðsson hefur nú gengið til liðs við hljómsveitina og þeytir frumraun sína sem meðlimur MAMMÚT á Ride the Fire en tilfinningaríkur og hljómmikill trommuleikur hans passar vel við leitandi hljóðheim sveitarinnar.

Það kveður að mörgu leyti við nýjan hljóm hjá MAMMÚT á Ride The Fire  en er þetta í fyrsta skiptið sem hljómsveitin tekur upp plötu á milli tveggja landa, Íslands og Bretlands. Þetta óhefðbundna upptökuferli leiddi til þess að hljómsveitarmeðlimir unnu að lagahlutum í sitt hvoru lagi, en ferlið skapaði þó ekki fjarlægð á milli hljómsveitarmeðlima heldur þvert á móti styrkti það traustið á milli þeirra og gaf þeim meira frelsi og vald til þess að spinna og umbreyta jafnvel lagasmíðum hvors annars. „Það var gagnkvæm virðing og frelsi í þessari vegferð“ segir Ása. „Allar hugmyndir voru velkomnar. Þetta varð að hálfgerðri rannsóknarvinnu. Við lærðum að þekkja okkur betur sem hópur.“

Lögin á Ride The Fire eru sérstaklega myndræn og út frá þeim heimi skapaði hljómsveitin „persónur“ sem fylgja plötunni og eru hluti af sjónrænni umgjörð hennar. Ása lýsir þessu sem einskonar aðferð til að búa til strúktúr úr sköpunverki þeirra. Það mætti jafnvel líkja þessum persónulega sagnaheim við trúarbrögð en hann er þó glettinn í grunninn og er leikgleðin einmitt mikilvægt þema á plötunni. „Stjörnuspeki og trúarbrögð eru leið fyrir fullorðna til að leika sér og búa til nýtt myndmál. Við vorum mikið að hugsa um galdrana í því að búa til eigin sögur.“

Lögin tíu á Ride The Fire bjóða hlustendanum að stíga inn í þennan heim hljómsveitarinnar og upplifa það óvænta sem á vegi þeirra verður.

 HÉR MÁ NÁLGAST PLÖTUNA

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing