Myrkrabörn er ný tónlistarhátíð ætluð börnum

Myrkrabörn, ný íslensk samtímatónlistarhátíð fyrir börn verður haldin 1. febrúar nk. í Kaldalóni í Hörpu. Á dagskrá eru m.a. tónleikar fluttir á dótapíanó, kórverk eftir Hildi Guðnadóttur og barnaópera. Aðgangur að hátíðinni er ókeypis.

Hátíðinni er ætlað að gera samtímatónlist aðgengilega fyrir börn og fjölskyldur þeirra og standa fyrir viðburðum sem eru upplýsandi og fræðandi samhliða því að vera skemmtlegir. Börn eru áheyrendur og tónlistarfólk framtíðarinnar og þau eiga að hafa aðgengi að fjölbreyttri menningarflóru. Nýsköpun í hverskyns list er nauðsynleg fyrir áframhaldandi þróun listgreina. Mikilvægur liður í því að ala upp tónlistarunnendur og tónlistarfólk framtíðarinnar er að kynna fyrir þeim tónlist á unga aldri. Myrkrabörn er haldin samhiða tónlistarhátíðinni Myrkum músíkdögum.
Á dagskrá eru tónleikar með Stúlknakór Reykjavíkur og AURORA þar sem flutt verða verk eftir íslensk samtímatónskáld, m.a. Hildi Guðnadóttur, óvenjulegir tónleikar með Tinnu Þorsteinsdóttur þar sem hún mun leika verk á dótapíanó ásamt því að nota rafmagn og hreyfimyndatónskrift og tónleikarnir Haraldur kjúklingur og aðrar furðuverur þar sem Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona, Jón Svavar Jósefsson baritónsöngvari og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari bregða á leik til að færa börnum á öllum aldri nýja íslenska söngtónlist sem er samin með börn í huga.
Myrkrabörn fara fram í Kaldalóni í Hörpu laugardaginn 1. febrúar frá kl. 14:00 – 17:00 og er aðgangur ókeypis svo lengi sem húsrúm leyfir.
Auglýsing

læk

Instagram