Ráð um hvernig auka má nánd í samböndum fólks

Auglýsing

Þegar talað er um nánd dettur flestum kynlíf í hug og telja að nú eigi að spjalla um hvernig hægt sé að lífga upp á þann þátt ástarsambandsins eða gera hann fjörlegri. En nánd er flókið fyrirbæri og samanstendur af mörgum þáttum. Staðreyndin er sú að ástarsamband getur verið náið og gott þótt kynlífið sé ekkert sérstakt og kynlífið getur verið frábært þótt fólk eigi ákaflega erfitt með að nálgast hinn aðilann. Skoðum þetta aðeins betur.

Skoðum fyrst aðeins hugtakið nánd. Hún getur verið tilfinningaleg, andleg, líkamleg og vitsmunaleg. Það er ólýsanlegt að finna ástartilfinningu kvikna gagnvart annarri manneskju. Þessa hlýju sterku tilfinningu sem felur í sér löngun til að gefa henni allt, vernda hana, umvefja hana og veita henni umhyggju. Ástin endist þótt fyrsta hrifningin dofni og getur verið til staðar þótt lostinn hverfi. Andleg ást felur í sér djúpstæða tengingu við aðra manneskju, einhvern skilning og innsæi sem erfitt er að skýra. Dæmi eru um að fólk finni á sér að eitthvað hafi komið fyrir makann og vel þekkt að mæður hafi eitthvert sjötta skilningarvit þegar kemur að börnum þeirra.

Líkamleg nánd er svo þessi losti, óseðjandi þörf og löngun í að vera með annarri manneskju og njóta með henni þess sem kynlífið býður upp á. Vitsmunaleg tenging verður þegar fólk getur talað saman um hvað sem er, notið þess að ögra hvert öðru með rökræðum og umræðum um hvað sem hugur þess stendur til. En á sama tíma styðja, efla og hvetja hinn aðilann til dáða, í raun vera órjúfanlegur þáttur í sköpunarferlinu hjá listamanni eða snillingi á vísindasviðinu. Mörg pör í sögunni hafa verið þekkt fyrir einmitt þetta. Meðal annars Simone de Beauvoir og Jean Paul Sartre.

Manneskjur tengjast nánum böndum á margvíslegum sviðum og á margan hátt. Foreldrar og börn eru tengd órjúfanlegum böndum og þegar vel tekst til verður foreldrið grunnurinn sem byggt er á, baklandið sem leitað er til. Þar kemur oft til ólíkir persónuleikar, erfiðleikar í uppvexti eða aðrar aðstæður. Vinir umvefja hvorn annan með vináttu og hlýju og þekkjast oft dýpra og betur en par í ástarsambandi. Systkini bindast einnig oft sterkum böndum og eiga mikinn þátt í uppeldi og þroska hvers annars. En svo kemur að því að velja sér maka. Þá vilja margir eignast allt þetta í einni manneskju og eiga dásamlegt kynlíf að auki.

Auglýsing

Þetta eru óraunhæfar væntingar en það er hægt að auka nánd í samböndum og ef eitthvað vantar á einhvern þessara fjögurra þátta nándar má gera ýmislegt til að bæta um betur.

„Ekkert er jafnóstöðugur og sveiflukenndur hluti af samböndum og kynlífið. Það fer allt frá því að fólk geri það oft á dag upp í að vera einu sinni í viku eða enn sjaldnar.“

Tilfinningaleg nánd

Tilfinningaleg nánd er eiginlega grunnur þess að fólk nái almennt að tengjast. Tilfinningin er nefnilega sú að þú tilheyrir þessari manneskju og hún þér. Á því grundvallast traust og þessi djúpa varanlega væntumþykja. Því sterkri sem þessi tilfinning er því traustari verða ástarböndin og oft kemur í kjölfarið víðtækari og meiri nánd á öðrum sviðum. Það er hægt að rækta tilfinningalega nánd á margan hátt. Til dæmis með því að sýna maka sínum umhyggju, vera til staðar fyrir hann og styðja ef hann þarf á að halda, reyna að hvetja hann til að láta drauma sína rætast og efla hann í því sem hann er að gera með því að tala um hlutina, taka þátt í því sem er að gerast í lífi hans og vera tilbúin að grípa inn í ef allt virðist stefna í óefni.

Þetta er alls ekki auðvelt og á ekki að vera það. En þó eru margvíslegar leiðir til að sýna umhyggju sem þurfa ekki að kosta mikla fyrirhöfn. Til dæmis má nefna að jafnari verkaskipting á heimilum, skilningur á þörfum makans fyrir líf utan sambandsins, ræktun áhugamála, bæði sameiginlegra og sitt í hvoru lagi, og hvernig þú talar til makans eru allt þættir sem skipta máli. Ef þú gerir lítið úr maka þínum eða látlausar kröfur til hans kemur að því að hann dregur sig frá þér. Það er eðlilegt að fólk einfaldlega dragi sig út úr aðstæðum þar sem því líður ekki vel. Þess vegna er mikilvægt að aðilar í sambandi fari reglulega í sjálfskoðun og velti fyrir sér þrennu: Er ég góð/ur við maka minn? Tala ég hlýlega til hans og á þann hátt að það byggi upp? Stend ég mig vel í að sinna þeim verkefnum sem nauðsynleg eru á heimilinu? Veit ég hverjar helstu þarfir, langanir og draumar maka míns eru? Er eitthvað sem ég get gert betur?

„Ef þér finnst þú hafa fjarlægst maka þinn tilfinningalega og þú finnur ekki lengur þessa djúpu væntumþykju sem var til staðar áður er gott að staldra við og rifja upp hvað dró þig að honum í upphafi.“

Ef þér finnst þú hafa fjarlægst maka þinn tilfinningalega og þú finnur ekki lengur þessa djúpu væntumþykju sem var til staðar áður er gott að staldra við og rifja upp hvað dró þig að honum í upphafi. Stundum breytist fólk og fjarlægist hvort annað vegna þess að aukinn þroski leiðir það út á nýjar brautir í lífinu. Þegar það gerist er stundum óhjákvæmilegt að segja skilið við hið gamla hvort sem um er að ræða maka, vini eða aðstæður. En löng sambönd eru verðmæt og enginn ætti að kveðja slíkt að illa ígrunduðu máli. Í öllum samböndum eru hæðir og lægðir og það er mögulegt að ákveðin vanlíðan eða átök innra með þér geri það að verkum að þú finnir ekki til sömu ástar og hlýju og áður. Það getur líka verið að maki þinn hafi með hegðun sinni sært þig og þú þurfir tíma til að jafna þig á því. Þá ríður á að vita hvort hann hyggst bæta ráð sitt og sýna og sanna að hann sé þess verður að þú fyrirgefir af einlægni. Það er oft hægt að kveikja neistann að nýju því lengi lifir í gömlum glæðum.

Líkamleg nánd

Ekkert er jafnóstöðugur og sveiflukenndur hluti af samböndum og kynlífið. Það fer allt frá því að fólk geri það oft á dag upp í að vera einu sinni í viku eða enn sjaldnar. Þótt líkamleg nánd sé mikilvæg þarf hún ekki alltaf að enda með kynlífi. Aðstæður geta kallað á að það sé einfaldlega ekki hægt að stunda kynlíf þannig að báðir aðilar njóti. Álag vegna barneigna, veikinda, mikillar vinnu eða andlegra átaka geta gert það að verkum. Þá er gott að sleppa ekki alveg snertingunni. Það að liggja saman í sófanum og horfa á sjónvarp, haldast í hendur, kyssast og knúsast getur viðhaldið neistanum þar til aðstæður lagast.

Þegar snerting er til staðar í sambandi er það til marks um að parið finni enn til líkamlegrar aðlöðunar. Fari fólk hins vegar að forðast að snerta er kominn tími til að athuga stöðuna. Að snertast og geta verið nálægt hvort öðru er til marks um að viðkomandi líði vel í návist hins aðilans, treysti honum og sé til staðar fyrir hann ef á þarf að halda. Líkamleg snerting er oft upphaf þess að opna sig og ræða hlutina.

Sambandssérfræðingar eru hins vegar sammála um að fólk tali almennt allt of lítið um kynlíf sitt. Þeir segja að nauðsynlegt sé að pör ræði hvað þeim þykir gott og hvað ekki, segi hvað þau langar að prófa og séu tilbúin að láta sér mistakast. Það er ekkert að því að reyna eitthvað og enda í asnalegri hrúgu og hlæja að því saman. Kynlíf þarf heldur ekki alltaf að enda með fullnægingu og það má fá mikið út úr því að veita makanum nautn.

„Að tala saman um áhugamál sín, þjóðmál, trúmál, uppeldi, listir eða skapandi verkefni hvors um sig er það sem skapar og viðheldur vitsmunalegri nánd.“

Andleg nánd

Þótt fæstir nái því að tengjast svo sterkt að þeir beinlínis viti alltaf hvernig hinum aðilanum líður má rækta andlega nánd á margan hátt. Ef fólk er trúað eða hefur áhuga á andlegum málefnum nær það oft að tengja saman huga sína við slíkar iðkanir. Sum pör biðja saman en önnur hugleiða saman. Það skapast einnig oft rútínur í samböndum sem ýta undir andleg tengsl, til dæmis þegar fólk nýtur lista saman. Að sitja saman við að hlusta á tónlist, lesa eða horfa á gott sjónvarpsefni getur skapað einmitt þá stemningu að þið séuð akkúrat þar sem þið eigið að vera.

Vitsmunaleg nánd

Að tala saman um áhugamál sín, þjóðmál, trúmál, uppeldi, listir eða skapandi verkefni hvors um sig er það sem skapar og viðheldur vitsmunalegri nánd. Mörg pör tala um að þau séu mjög ólík, hafi í raun alls ekki sömu skoðanir á neinu. Annar aðilinn er til vinstri í stjórnmálum meðan hinn hallast að hægri vængnum. Einn er trúaður annar trúlaus, einn langar að búa í sveit meðan hinn er borgarbarn og svo mætti lengi telja. Gæfa þessa fólks er hins vegar að það er meðvitað um mismunandi viðhorf sín og gildi og er sátt við að svo sé. Það getur talað um þessi mál, rökrætt án þess að rífast og þótt til snarpra orðaskipta komi enda þau ekki á þeim nótum á að öðrum aðilanum finnist hann lítillækkaður eða sér hafnað.

Það er einnig frábært að eiga í maka sínum, sinn helsta stuðningsmann. Þann sem hvetur þig til að láta reyna á hæfileika þína, stíga út fyrir þægindarammann og er alltaf tilbúinn að setjast niður og hlusta þegar þú vilt ræða næstu skref eða hvað þú telur heppilegast að gera í nýjum aðstæðum.

Þessu fylgir að makinn er tilbúinn að gera með þér ýmsar tilraunir, til dæmis að prófa að búa í sveit þótt hann elski borgina umfram allt eða koma með þér í kirkju á sunnudagsmorgnum þótt guð sé alls ekki til að hans mati. En hann ögrar þér líka til að koma með honum á veiðar eða til að sjá skynsemina í kvótakerfinu. Hverjir sem ásteytingarsteinarnir eru eða sameiginleg gildi ykkar berið þið virðingu fyrir hvort öðru og eruð tilbúin til að gefa bæði skoðunum og áhugamálum hins tækifæri. Hver veit nema við það skapist nýr grundvöllur til að sameinast um eitthvað bráðskemmtilegt. En gerist það ekki veit makinn að minnsta kosti að hann er nægilega mikils virði í þínum augum til að þú sért tilbúin/n að gefa þessu séns.

 

Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi að vefnum – Prófaðu frítt í 7 daga

 

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram