Reiknað með því að forsætisráðherrann sé karlmaður 

„Ég segi alltaf að ég væri ekki forsætisráðherra ef það hefðu ekki verið konur sem börðust fyrir leikskólum, fyrir fæðingarorlofinu og öllum þessum umbótum sem hafa orðið. Vegna þeirra geta konur átt börn og fjölskyldur og líka verið forsætisráðherra eða hvað sem þær vilja vera,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem er í forsíðuviðtali nýjasta tölublaðs Vikunnar .

„Þetta var auðvitað algjör karlaheimur og það hefur margt breyst. Ég hef orðið meiri jafnréttissinni eftir því sem ég hef elst, kannski ekki síst af því að ég á stráka en ekki stelpur,“ segir Katrín. „Alveg frá því ég byrjaði í pólitík hef ég fundið fyrir því að þurfa að leggja dálítið mikið á mig af því að ég er kona og ég veit að margar konur tengja við þá tilfinningu að sitja við borð, eina konan með körlum sem taka undir hver með öðrum en svo segir konan eitthvað og það er bara eins og hún hafi ekki sagt neitt. Ég hef heyrt frá mörgum konum sem ég hef unnið með að þeim hafi iðulega liðið eins og þær hafi þurft að vera betur undirbúnar en karlarnir. Í útlöndum er ég iðulega spurð að því hvar forsætisráðherrann sé. Og ég spyr á móti: „Ertu að tala um íslenska forsætisráðherrann? Það er ég.“ Þá finnst þeim þetta ekki alveg ganga upp sko; líka af því að ég er ekki alveg klædd í hlutverkið, ég bara klæði mig eins og ég vil, að sjálfsögðu alltaf snyrtileg, ég mæti ekki eins og haugur,“ segir Katrín og skellir upp úr, „en ég er ekki alveg inni í staðalmyndinni. Það eru bæði karlar og konur sem spyrja mig hvar íslenski forsætisráðherrann sé, því það er reiknað með því að það sé karlmaður. Nýlega var haldin loftslagsráðstefna í Glasgow þar sem við vorum níu konur af hundrað og eitthvað leiðtogum. Við á Íslandi erum komin langt miðað við mörg önnur ríki en samt erum við enn að berjast og það er ótrúlega mikilvægt að vera alltaf á þessari jafnréttisvakt.“

Hægt er að lesa nýjasta tölublað Vikunnar og viðtalið við Katrínu á áskriftarvef Birtings. Sjö daga fríáskrift er í boði fyrir nýja áskrifendur.

 

Auglýsing

læk

Instagram