Þriðji Póllinn – Sjáðu fyrstu stikluna!

Þriðji Póllinn er ný íslensk kvikmynd í fullri lengd, heimildarmynd um geðhvörf með söngvum og fílum. Söguhetjur eru Högni Egilsson, tónlistarmaður, og Anna Tara Edwards, íslensk kona sem ólst upp í frumskógum Nepals innan um tígrisdýr og nashyrninga.
Anna Tara veiktist af geðhvörfum upp úr tvítugu og missti móður sína úr sama sjúkdómi. Hún lifði í skugga veikindanna um árabil, en þegar Högni Egilsson steig fram með sína sögu ákvað hún að feta sömu leið, skora skömmina á hólm og efna til tónleika til vitundarvakningar um geðsjúkdóma í Kathmandu, höfuðborg Nepals. Hún fékk Högna til að spila á tónleikunum og fyrir ágóðann var opnuð hjálparlína fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum í Nepal.
Þriðji Póllinn fylgir Önnu Töru og Högna um framandi slóðir í aðdraganda tónleikanna. Við heyrum þeirra hliðar á sjúkdómnum; um hæðirnar og hinar miklu lægðir og leitina að jafnvægi. Þriðji Póllinn er ekki hefðbundin fræðslumynd heldur innsýn í hugsun og veruleika tveggja einstaklinga sem hafa glímt við sama sjúkdóm. Þetta er ferðasaga, mynd um óvænta vináttu og hreinskilin og opin umræða um hvað það þýðir að vera með geðsjúkdóm, og vera aðstandandi. Sögur þeirra lýsa bæði alvarleika sjúkdómsins, en einnig sigrum, og gefa umfram allt von.

Þetta er fyrsta mynd Anní Ólafsdóttur í fullri lengd en Andri Snær Magnason hefur áður leikstýrt Draumalandinu ásamt Þorfinni Guðnasyni, sem var aðsóknarmesta heimildarmynd Íslandssögunnar.

Framleiðendur myndarinnar eru: Andri Snær Magnason, Hlín Jóhannesdóttir, Halldóra Þorláksdóttir og Sigurður Gísli Pálmason.
Klipping: Eva Lind Höskuldsdóttir, Anni Ólafsdóttir og Davíð Alexander Corno.
Kvikmyndataka: Anni Ólafsdóttir og Eiríkur Ingi Böðvarsson
Tónlist: Högni Egilsson

Sena dreifir myndinni en fyrirhuguð frumsýning í kvikmyndahúsum er 27. mars og sérstök hátíðarfrumsýning verður þann 24. mars í Háskólabíó.

Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr myndinni.

Auglýsing

læk

Instagram