Tungumálatöfrar – Markmið íslenskukennslu skoðuð

Árlegt málþing Tungumálatöfra fór fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í fyrradag undir yfirskriftinni: Íslenskukennsla í fjölmenningar samfélagi. Eliza Reid forsetafrú opnaði málþingið en hún hefur stutt verkefnið frá því að það var sett á laggirnar fyrir fimm árum. Hún sló á létta strengi og viðurkenndi að hún hefði ekki vitað hver Laddi var fyrr en hún flutti á Bessastaði og þess vegna hjó hún eftir hugvekju í dagskrá sem nefndist Hver er Laddi og aðrar erfiðar spurningar. Forsetafrúin sagði að íslenskan væri skemmtilegt og fallegt tungumál sem yrði bara betra með framlagi innflytjenda og því væri mikilvægt að auka aðgengi að íslenskunámi fyrir alla. Hún sagði verkefni eins og Tungumálatöfra sem kæmi fram með hugmyndir um hvernig betrumbæta megi íslenskukennslu fylla hana bjartsýni.

 Tækifæri en ekki vandamál

Í framsöguerindum dagsins sýndu kennarar Tungumálatöfra hvernig lifandi námsefnisgerð virkar og bentu á mikilvægi þess að viðurkenna tungumál og bakgrunn barna með íslensku sem annað mál. Þau greindu einnig frá þróun vefskóla sem er í bígerð á vegum verkefnisins og faraldurinn kennt okkur hvernig má nota vefinn betur í þessum efnum.


Renata Emilsson Pesková kynnti niðurstöður í rannsókn sinni á skólareynslu fjöltyngdra nemenda. Hún benti á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir öllum tungumálum og að heimili setji sér tungumálastefnu til þess að halda utan um móðurmál barnanna sinna. Hún sýndi líka hvernig ólík tungumál lifa í börnunum og það sé fyrst og fremst kostur að vera fjöltyngdur.

 Í erindi sem Donata Honkowicz Bukowska sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu flutti um stefnu og aðgerðir vegan menntunar barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn sagði hún að mikil þörf væri á að styrkja þennan hóp í gegnum skólakerfið. Niðurstöður rannsókna sýni að þau eigi erfiðara uppdráttar í íslensku samfélagi. Hún sagði í fyrsta sinn raunverulega gert ráð fyrir börnum sem eiga íslensku sem annað mál í nýrri menntastefnu ráðuneytisins. Í stefnunni er lögð áhersla á aðgerðir sem stuðla að því að þau börn nái að standa jafnfætis öðrum í skólakerfinu sem er orðið fjölmenningarlegt. Það beri því að fagna fjölbreytileikanum og sýna móðurmáli nemenda virðingu.

 Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri á Bolungarvík sagði mikilvægt að draga fram þau tækifæri sem liggja í því að kunna fleira en eitt tungumál. Hann sagði þó að aðgerðir virtust stundum ómarkvissar og kallaði eftir betri verkfærum til að framfylgja þeirri stefnu sem samþykkt hefur verið. Hann benti á að þegar ógn steðjaði að líkt og í yfirstandandi heimsfaraldri, þá hafi sýnt sig að þegar sett er skýr stefna og markmið, þá nái sem flestir að fylgja.

 Allir upp á dekk

Í pallborðsumræðum lýstu innflytjendurnir Fida Abdu Libdeh og Jasmina Vajzovic Crnac erfiðri reynslu sinni af skólakerfinu á Íslandi þegar þær fluttu hingað sem unglingar. Þær sögðu að enn þann dag í dag þurfi að gera miklu betur í að auka aðgengi fólks sem flyst hingað að íslenskukennslu og ekki síður að bjóða fólk velkomið til þátttöku innan samfélagsins.

 Niðurstöður hópavinnu sem málþingsgestir tóku þátt í var að kalla eftir samstarfi stjórnvalda, atvinnulífs, skólakerfisins og heimilanna til þess að tryggja að sem mestur árangur verði af íslenskukennslu barna sem íslensku sem annað tungumál. Þá var þungi í þeim skilaboðum að íslenskukennsla þeirra sem eldri eru þurfi að vera aðgengileg og var skýr afstaða að þar mætti atvinnulífið stíga inn af meiri þunga með íslenskukennslu fyrir starfmenn sína. Það er ekki svo að einhver einn tryggi að innflytjendur læri íslensku, það þarf í raun allt samfélagið upp á dekk.

 Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lokaði málþinginu. Hún sagði verðmæti í innflytjendum og verðmæti í íslenskri tungu og því ætti það að vera metnaðarmál bæði stjórnvalda og atvinnulífsins að gæta að íslenskunni og tryggja jöfn tækifæri allra. Hún sagði verkefni á borð við Tungumálatöfra mikilvægt fyrir okkur öll.

 

Auglýsing

læk

Instagram