Úr 30 kílóum af lífrænum sítrónum yfir í 300 kíló

Flestir sælkerar ættu að þekkja limoncello – sæta ítalska sítrónulíkjörinn sem hefð er fyrir að bera fram ískaldan eftir góða máltíð. Nýlega kom á markað spennandi íslensk útgáfa af þessum dásamlega ferska drykk sem heitir Limoncello Atlantico og mun þetta vera fyrsta limoncello-ið sem fer í almenna framleiðslu hér á landi. Við kíktum í verksmiðjuna og fengum að litast um, þá komumst við að því að limoncello-framleiðslan hófst sem lítið gæluverkefni sem vatt svo hratt og örugglega upp á sig.   

Við lögðum nýverið leið okkar í Hafnarfjörðinn í bruggsmiðjuna Þoran Distillery þar sem Limoncello Atlantico er framleitt. Þar tóku frændurnir Birgir Már Sigurðsson og Kristján Nói Sæmundsson á móti okkur og sögðu okkur frá aðdraganda þess að þeir fóru að framleiða limoncello.

„Fyrsta varan frá Þoran Distillery kom út byrjun árs 2019, það var ginið okkar. Síðan þá höfum við verið að fást við eitt og annað og þróa nýjar vörur sem við stefnum á að gefa út seinna á þessu ári. En limoncello-ið byrjaði bara sem gæluverkefni,“ útskýrir Birgir, stofnandi Þoran Distillery. Hann segir okkur frá því að Kristján, kallaður Kiddi, hafi verið að vinna á ítölskum veitingastað þegar upp kom sú hugmynd að fá Birgi til að þróa og framleiða limoncello í takmörkuðu upplagi til að selja á veitingastaðnum. Birgir féllst á þetta. „Við byrjuðum að gera tilraunir með 30 kíló af ítölskum sítrónum. Ég þróaði uppskriftina og aðferðina og prófaði ýmsar útgáfur í ferlinu.“  Hann segir lokaútkomuna hafa verið svo vel heppnaða að þeir Kiddi ákváðu að gera þetta almennilega og framleiða limoncello-ið í meira magni en til stóð upphaflega og þá ekki eingöngu fyrir einn veitingastað.

„Við vildum taka þetta lengra, sérstaklega þegar við áttuðum okkur á því að það eru svona margir limoncello-nördar þarna úti,“ segir hann og hlær. Birgir segir það hafa komið sér á óvart hversu margir Íslendingar eru hrifnir af þessum sæta og ferska sítrónulíkjör frá Ítalíu og viðbrögðin við Limoncello Atlantico hafa komið skemmtilega á óvart.

„Við erum eina íslenska limoncello-ið ef svo mætti að orði komast. Við notum auðvitað ítalskar sítrónur en vatnið er íslenskt og öll framleiðsla fer fram hér á landi, fólk kann vel að meta það.“ Spurður nánar út í framleiðsluferlið segir Birgir: „Þegar það er framleiðsla í gangi hjá okkur þá sitjum við fimm, sex saman í kringum eina fötu og handskrælum hverja einustu sítrónu. Það er bara mjög hugguleg stund, við hringjum í einhverja vini og fjölskyldumeðlimi og svo er bara setið, spjallað og skrælt.“

Birgir segir þá hugmynd vissulega hafa komið upp að kaupa vél sem myndi skræla sítrónurnar í stað þess að nota handafl. „En svo fengum við ítalskan mann í heimsókn til okkar og hann sá að við vorum að handskræla hverja einustu sítrónu. Hann heillaðist alveg af þessu og fór að segja öllum að við værum að gera allt í höndunum … þá hættum við bara við að kaupa þessa græju,“ segir hann og hlær.

Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi – Prófaðu frítt í 7 daga
Auglýsing

læk

Instagram