Vaxtarsprotinn afhentur í fyrramálið

Utanríkisráðherra afhendir viðurkenningar til sprotafyrirtækja fyrir góðan árangur í Kaffi Flóru í Grasagarðinum í Laugardal fimmtudaginn 2. september kl. 9.30.

Þrjú fyrirtæki hafa verið valin af dómnefnd Vaxtarsprotans til að hljóta viðurkenningar fyrir vöxt í rekstrartekjum á milli ára. Það fyrirtæki sem sýndi mestan hlutfallslegan vöxt milli áranna 2019 og 2020 auk þess að uppfylla önnur viðmið dómnefndar hlýtur nafnbótina Vaxtarsproti ársins. Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, afhendir Vaxtarsprotann á morgun fimmtudaginn 2. september kl. 9.30 í Kaffi Flóru í Grasagarðinum í Laugardal.

Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Vaxtarsprotinn var fyrst afhentur 2007 og er þetta því í 15. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Dómnefndina skipa Lýður Skúli Erlendsson fyrir Rannsóknarmiðstöð Íslands, Gísli Hjálmtýsson fyrir Háskólann í Reykjavík, Fida Abu Libdeh fyrir Samtök sprotafyrirtækja og Sigríður Mogensen fyrir Samtök iðnaðarins.

Á viðburðinum verður tekið mið af þeim sóttvarnarreglum sem í gildi eru.

Auglýsing

læk

Instagram