„Viljum mennta forsætisráðherra“

Heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði hafa verið kennd til einnar prófgráðu við Háskólann á Bifröst í hartnær 20 ár.

Dr. Magnús Skjöld, dósent í stjórnmálafræði og fagstjóri námsins, sem kom að því að setja það á laggirnar á sínum tíma, segir að metnaður skólans sé að mennta stjórnendur og leiðtoga fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag, nú eins og fyrir 100 árum þegar skólinn var stofnaður sem Samvinnuskólinn í Reykjavík.

Stofnendur skólans sáu fyrir sér að hann myndi veita leiðtogum samvinnu- og verkalýðshreyfingar þá menntun sem þeir þyrftu til að umbreyta íslensku samfélagi og þó samfélagið og skólinn hafi breyst og Samvinnuskólinn breyst í Háskólann á Bifröst, þá sé markmiðið enn það sama.

„Við viljum vera hreyfiafl jákvæðra breytinga í samfélaginu og mennta fólk til áhrifa og ábyrgðar. Það var meðal annars vegna þess sem við komum BA námi í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði (HHS) á fót á sínum tíma, en námið byggir á fyrirmynd frá Oxford háskóla, námsgráðunni PPE, sem margt forystufólk, m.a. margir fyrrverandi forsætisráðherrar, Bretlands hafa. HHS er gríðarlega hagnýt gráða fyrir þá sem vilja skilja samfélagið betur og nálgast það með þremur sjónarhornum þessara mikilvægu fræðigreina. Bifröst hefur verið þeirrar gæfu aðnjótandi að margir fyrrum nemendur skólans hafa haft mikil áhrif á íslenskt samfélag, m.a. á vettvangi stjórnmálanna og við viljum halda þeirri stöðu,“ segir Magnús.

„Við viljum mennta forsætisráðherra framtíðarinnar segir hann kíminn að lokum.“

Auglýsing

læk

Instagram