Allt sem þú þarft að vita vegna núverandi ástands á Suðurnesjum

Almennar upplýsingar upplýsingar frá Almannavörnum Ríkislögreglustjóra sem birtar voru rétt í þessu:

  • Laugardagskvöldið 9. febrúar fór hjáveitulögn meðfram Njarðvíkuræðinni, sem skemmdist í eldgosinu 8. febrúar, í sundur. Lögnin laskaðist að öllum líkindum vegna hraunrennslis og þegar aukið var við vatnsdælingu virðist hún hafa brostið endanlega. Skemmdirnar eru undir þykku hrauni og því er ekki hægt að ráðast í viðgerðir.
  • Þar með berst heitt vatn ekki lengur til Reykjanesbæjar og því þarf að leggja nýja lögn þangað til að koma heitu vatni til skila. Þessi framkvæmd mun taka einhverja daga, en sem stendur er ekkert hægt að fullyrða um nákvæmlega hversu langan tíma hún tekur.
  • Þetta mun hafa veruleg áhrif á daglegt líf á Reykjanesi næstu daga og ljóst er að næstu vika reynir á samtakamátt og samheldni íbúa.
  • Þetta verður óþægilegur en mjög eftirminnilegur tími og öll fjölskyldan er í þessu saman. Þetta verður búið fyrr en varir.
  • Framundan er kaldur tími í húsum á Suðurnesjum og mörg þurfa að treysta á rafmagnshitara til að hita híbýli sín. Vandinn við það er að raforkukerfið er ekki hannað fyrir húskyndingu svo þetta fyrirkomulag reynir verulega á kerfið.
  • Til að rafmagn haldist á er því brýnt að fólk noti raftæki sparlega og aðeins eftir þörfum. Þannig hjálpast Suðurnesjabúar að við að halda rafkerfinu gangandi. Nú þegar hefur orðið vart við rafmagnsleysi á stóru svæði vegna álagsins. Það er ekki hægt að segja það nægilega oft hve mikilvægt það er fyrir rafkerfið á Suðurnesjum að fara sparlega með rafmagnið. Það mun skipta sköpum næstu daga. 
  • Sparnaður á rafmagnsnotkun er ekki spurning um magn rafmagns heldur álag dreifikerfið og flutningsgetu.
  • Almannavarnir hvetja einnig íbúa til að huga að nágrönnum sínum, því ekki er víst að öllum hafi tekist að verða sér út um hitara eða hafi séð eða skilið þessar leiðbeiningar. Auk þess gæti fólk sem er fjarverandi þurft aðstoð við að huga að sinni eign og fólk sem tilheyrir  viðkvæmum hópum gæti þurft aðstoð.

Rafmagn

Spara þarf rafmagn á meðan heita vatnið er ekki til staðar. Veitukerfin fyrir rafmagn gera ekki ráð fyrir því að hús séu hituð með rafmagni.

  • Slökktu á rafmagsofnum á meðan önnur orkufrek raftæki eru notuð. Nýtið um leið varma frá eldamennsku í stað rafhitara á meðan matseld fer fram.
  • Ef hiti í eldhúsi eru undir 12°C má slökkva á kæliskápnum – þetta eru ekki það margir dagar að maturinn fer ekki illa.

Forðast skal að nota heimilistæki sem nota mikið rafmagn!

Þau heimilistæki sem nota mest rafmagn eru hér í röð mestrar notkunar:

  • Rafmagnsbílar á heimahleðslustöð (400V þriggja fasa)
  • Hitablásarar
  • Rafmagnsofnar (olíufylltir)
  • Rafmagnsbílar á ferðahleðslutæki (220V)
  • Eldunartæki (ofnar og hellur)
  • Þau sem eiga stór fiskabúr með hitara þurfa að telja þá hitun með þegar umfang hitunar er metið.

Mikil notkun á orkufrekum rafmagnstækjum getur valdið yfirálagi á dreifikerfi rafmagns innan hverfa. Sé notkun of mikil getur það valdið alvarlegu kerfishruni og er því mikilvægt að allir fari eftir tilmælum Almannavarna og orkufyrirtækja.

Rafmagnsbíla skal ekki hlaða í heimahúsum í þessu ástandi þar sem þeir draga mikið rafmagn. Notið hverfahleðslur og hraðhleðslur í útjaðri bæjarins.

Hvar er hægt að hlaða rafmagnsbíla?

HS Veitur mæla með að eftirfarandi hraðhleðslustöðvar verði notaðar fyrir almenning með tilliti til álags á kerfið:

  • Brimborg – Flugvellir 8
  • Instavolt – Aðaltorg
  • N1 – Flugvellir 27
  • Orkan – Fitjar 1
  • ON – Fitjum
  • Olís/Ísorka – Fitjabraut

Val á búnaði ef nota á rafmagn til húshitunar og notkun á honum:

  • Komi til þess að hitaveitan detti út og þá til lengri tíma er mikilvægt að hafa í huga að dreifikerfi rafmagns er ekki byggt fyrir það álag að allir íbúar kyndi húsin sín með rafmagni. Mikilvægt er því að íbúar takmarki raforkunotkun þannig að hvert heimili, hver íbúð, noti að hámarki 2.500 W (2,5 kW) og til húshitunar. Mjög mikilvægt að þetta sé haft í huga við val á búnaði og jafnframt að leita allra leiða til að spara orku í annarri raforkunotkun heimila. Ljóst er að framangreint hámark dugar aðeins til lágmarkshitunar á hverri íbúð. Mikilvægt er að allir virði þessi takmörk til þess að tryggja öryggi allra kerfa, þ.e. bæði dreifikerfi HS Veitna en síðast en ekki síst raflagnir viðkomandi íbúðar.

Nokkrar ábendingar um val á búnaði og notkun hans:

  • Mikilvægt er að búnaður í heild sinni noti ekki meira en 2.500 W (2,5 kW.)
  • Betra er að nota fleiri minni ofna sem hægt er að dreifa um húsnæðið frekar en einn stóran. Með því að nota fleiri minni ofna þá er hægt að dreifa álagi á tenglana sem eru í húsinu.
  • Alls ekki skal fara í stærri ofna heldur en 1.000 W (1 kW) og er þá að hámarki hægt að hafa tvo slíka í gangi í einu. Einnig gæti verið hentugt, eftir stærð og fjölda rýma, að vera með fimm stykki af 500 W (0,5 kW) ofnum og dreifa þeim um heimilið. Stærri rafmagnsofna má stilla niður í 1.000 W (1 kW) eða 500 W (0,5 kW) eftir þörfum þannig að heildar notkun (samanlögð notkun allra rafmagnsofna í íbúð) fari ekki upp fyrir hámarksnotkun.
  • Þegar keyptir eru nýir ofnar skal ávalt fara yfir gagnablöð sem honum fylgja og fara eftir leiðbeiningum framleiðanda. Mikilvægt er að notaðir séu ofnar með veltivörn og sjálfvirkum slökkvara ef ofn ofhitnar.
  • Ef nota skal ofna sem til eru í skúrnum eða geymslunni skal fara vel yfir þá og tryggja að þeir séu í góðu ástandi, sama á við um ofna sem fengnir eru að láni frá vinum og vandamönnum.
  • Aldrei skal setja fatnað eða annað til þerris á rafmagnsofna því það getur valdið íkveikju.
  • Einungis skal tengja einn ofn á rafmagnsgrein. Mælt er með að skoða upplýsingar í rafmagnstöflu um skiptingu greina niður á rými og dreifa ofnum á greinarnar.
  • Ekki skal nota fjöltengi þegar rafmagnsofnar eru settir í samband. Einungis skal tengja þá beint í jarðtengdan tengil á vegg og tryggja að stærð tengils sé fullnægjandi.
  • Ávalt skal staðsetja ofn þannig að ekki skapist af honum brunahætta og þar með hætta á að hann velti um koll. Ekki skal skilja eftir ofn í gangi til langs tíma, sé enginn heima.
  • Mikilvægt er að takmarka eins og kostur er aðra raforkunotkun ef til þess kemur að hitaveita verði ekki í boði og nýta þurfi rafmagn til húshitunar og lágmarka tap á varma. (sjá nánari upplýsingar um orkusparnað hér að neðan).

Gashitarar

  • Ef notast er við gashitara er mjög mikilvægt að huga að loftræstingu og ekki loka gluggum þar sem gashitarinn er staðsettur. Ekki yfirgefa hús með gashitun í gangi og farið eftir leiðbeiningum almannavarna við notkun þeirra.
  • GASHITARAR GETA MYNDAÐ KOLMÓNOXÍÐ (CO) SEM ER LÍFSHÆTTULEG GASTEGUND
  • Ef fólk notar gashitara viljum við minna á mikilvægi þess að hafa opna glugga þegar gashitari er notaður. Þá er ekki síður mikilvægt að slökkva á öllu gasi áður en fólk fer að sofa og setja gaskútinn út fyrir dyr. Aldrei á að nota gas í lokuðu rými innanhúss og yfir nótt, mikilvægt er að lofta um rými þar sem gas er í notkun.

Heitt vatn

Nauðsynleg viðbrögð við heitavatnsleysi til lengri tíma

Haldið heitu lofti inni eins og hægt er með því að: 

  • Loka öllum gluggum.
  • Varmastreymi er mest í gegnum glugga húsa og því þarf að hafa glugga lokaða og draga gluggagjöld fyrir ef hægt er og jafnvel að verja með teppum eða dýnum til að hindra varmasteymið. Dragið frá þegar sólin skín til að fá þann varma inn.
  • Minnkið ráp um útihurðir.
  • Gæta þarf að rakamyndun við glugga þar sem ekki er loftað út.
  • Fylgjast vel með inntaksrýmum/heitavatnsgrindum og halda á þeim varma þar sem það er oft viðkvæmasti hluti kerfisins. Ef þú ert t.d. með gólfhita á viðkvæmum stað eins og í sólhúsi þarf að passa að halda hita þar.

Leiðir til að viðhalda varma: 

  • Rafmagns- og gasofnar c.a. einn rafmagnsofn samhliða almennri notkun. Farið mjög gætilega með gashitagjafa innandyra, fylgið leiðbeiningum Almannavarna.
  • Færið rafmagnsofn á milli svæða til að koma varma á ólík rými í húsinu.
  • Kveikið á kertum.
  • Fólk ætti helst að velja eitt lítið rými í íbúðinni sem er hitað meira en önnur og vera mest þar, færa rúm saman og vera þar saman og sofa þar. Það er auðveldara að viðhalda varma í í smáum rýmum.
  • Nýtið útivistarfatnaðinn, verið í ull innst og síðan nægilega mörg lög til að líða vel en svitna ekki.
  • Færið pottablómin sem þola ekki mjög lágt hitastig inn í viðverurýmið sem er haldið heitara.
  • Þau sem hafa arinn ættu að nýta varmann frá honum og sleppa rafhitun á meðan. Töluverðar birgðir eru til af eldiviði hjá Húsasmiðjunni, Bauhaus, Byko, Skógræktinni, Skógræktarfélagi Reykavíkur, Olís og fleirum.
  • Eldið utan venjulegs matartíma til að minnka álagstoppa.
  • Nýtið ykkur sundlaugar á Höfuðborgarsvæðinu. Hveragerðisbær hefur líka ákveðið að bjóða íbúum á Suðurnesjum frítt í sundlaugina í Laugarskarði í Hveragerði svo lengi sem það er hitavatnslaust.
  • Hita má vatn fyrir nóttina og setja á hitapoka eða í 2L flöskur og hafa undir sænginni, það bætir miklum varma við.
  • Nýtið svefnpokana.
  • Þegar fólk vaknar og hefur kólnað er mikilvægt að koma blóðinu á hreyfingu með því að ganga stiga, gera hnébeygjur eða annað slíkt.
  • Unnið er að viðgerð á hitaveitulögn. Búast má við að talsverðan tíma taki að koma þrýstingi á veitukerfið. Má búast við að einhverja daga taki að þjónustan verði með eðlilegum hætti.
  • Fylgist vel með fréttum og tilmælum frá hitaveitu og Almannavörnum.

Leiðir til að fyrirbyggja skemmdir

  • Frostskemmdir í húsum fara fyrst að gera vart við sig ef húshiti fer niður fyrir 4 gráður. Við núverandi veðurfar er almennt hægt að gera ráð fyrir að slík kólnun eigi sér stað í húsum eftir 3-4 daga án hita.

Snjóbræðsla

  • Ef um er að ræða snjóbræðslu sem notar affall af húsinu er hætt við því að frostskemmdir myndist innan sólahrings. Mikilvægt er að blása vatni út úr því kerfi með loftpressu og dæla frostlegi í gegnum kerfið til að forðast tjón.

Heitir pottar 

  • Ef affall hitaveitu fer í lögn fyrir heitan pott þá er hætt við því að frostskemmdir myndist innan sólahrings. Mikilvægt er að blása vatni út úr því kerfi með loftpressu og dæla frostlegi í gegnum kerfið til að forðast tjón.

Gluggar

  • Varmastreymi er mest í gegnum glugga húsa og því þarf að hafa glugga lokaða og draga gluggagjöld fyrir ef hægt er og jafnvel að verja með teppum eða dýnum til að hindra varmasteymið.

Rafmagns- og olíuhitarar

  • Takmarka skal notkun hitablásara sem ganga fyrir rafmagni. Best er að staðsetja slíka hitablásara í tækjarýmum húsa til að koma í veg fyrir frostskemmdir í tækjarými en ekki að notast við þá til húshitunar.
  • Olíufylltir rafmagnsofnar skapa minna álag á rafveitukerfi svæðisins.

Gólfhitakerfi 

  • Ef um er að ræða gegnumstreymiskerfi með uppblöndun er æskilegt að taka hringrásardælur úr sambandi. Ekki þarf að taka hringrásardælur úr sambandi ef hitakerfi eru lokuð og á það við um bæði gólfhita og ofnakerfi.

Mat á ástandi fasteignar 

  • Til viðmiðunar um kulda í húsum er hægt að setja upp hitamæla eða setja glas með vatni á gólf við útvegg til að fylgjast með því hvort vatn sé farið að hríma.

Kalt vatn

  • Búið er að tryggja kalt vatn fyrir Suðurnes. Ekki er hægt að útiloka að skortur verði á neysluvatni t.d. ef frýs í inntökum og er því góð hugmynd að heimilin eigi vatn á brúsum, vatnsfötum eða plastflöskum bæði til eldamennsku, neyslu og einnig til að geta í nokkur skipti sturtað niður í WC klósettum.

Spurt og svarað 

  • Hvernig get ég best haldið hitanum í íbúðinni hjá mér?  

Sjá: Nauðsynleg viðbrögð við heitavatnsleysi til lengri tíma

  • Hvaða rafmagnstæki má ég nota?  

Núna munar um allt til að draga úr rafmagnsnotkun. Mikið álag er á dreifikerfi rafmagns í öllum hverfum á Suðurnesjum svo Almannavarnir mælast eindregið til þess að fólk bíði með notkun á ryksugum, þvottavélum, þurrkurum og öðrum tækjum sem taka mikla orku. Eðlileg notkun bakaraofna skilar varmanum inn í íbúðina svo ekki þarf að draga úr slíkri notkun.

Þau sem eiga stór fiskabúr með hitara þurfa að telja þá hitun með þegar umfang hitunar er metið.

  • Ég náði ekki að kaupa hitara, hvernig á ég þá að hita mína íbúð? 

Íbúar á Reykjanesi sem eru í brýnni þörf á hitagjöfum geta fengið rafmagnsofna eða blásara að láni í húsnæði Brunavarna Suðurnesja þar sem aðgerðarstjórnin er til húsa. Þau sem komast ekki sjálf á staðinn geta haft samband við 112 og fengið hitablásara sendan heim.

Verið er að vinna í að koma fleiri rafmagnshiturum til landsins. Algengt er að fólk eigi slíka hitara til svo gott er að kanna meðal vina og vandamanna hvort þeir geti lánað tæki. Hitablásararnir eru væntanlegir til landsins í dag. Hægt er að fylgjast með hjá helstu söluaðilum.

  • Er hægt að nota bakaraofninn, samlokugrillið eða eitthvað slíkt til að hita?  

Bakaraofnar, brauðristar, samlokugrill og sambærileg heimilistæki eru ekki hönnuð til þess að vera höfð í gangi í margar klukkustundir og því getur fylgt eldhætta að nota þau með slíkum hætti. Best er að nota til þess gerða hitara. Ef ekki er möguleiki að verða sér út um hitara er skást að notast við bakaraofn en gæta þarf þess að hafa hitastigið ekki hærra en um 100 gráður (1000-1200 W), hafa hurð ofnsins opna og fylgjast vel með vegna mögulegrar ofhitnunar á innréttingunni þar sem ofninn er. Gott er að slökkva á ofninum eftir 3 klst keyrslu og leyfa honum að kólna í 1 klst áður en hann er settur í gang aftur. Of löng notkun bakaraofns á of háum hita bæði styttir líftíma tækisins mjög sem og veldur hættu á íkveikju vegna ofhitnunar innréttingar.

  • Ég á gasgrill, get ég hitað íbúðina mína með því?  

Sjá leiðbeiningar Almannavarna um notkun á gasi innandyra sem getur verið mjög varasamt vegna bæði eitrunar og íkveikjuhættu. Hins vegar er góð hugmynd að nota grillin til eldunar utandyra til að draga úr rafmagnsnotkun.

  • Ég get farið í sumarbústað, er eitthvað sem ég þarf að hafa í huga áður en ég fer? 

Ef íbúð er yfirgefin er mjög mikilvægt að tryggja að skrúfað sé fyrir heita neysluvatnskrana því þegar hitaveitan kemst í lag byrjar vatnið að streyma aftur. Æskilegt er að lækka á ofnum til að spara notkun á heita vatninu.

  • Ég næ ekki í píparann minn, hvað skiptir máli varðandi hitakerfið í íbúðinni minni? 

Á vef HS Veitna er að finna góðar leiðbeiningar á þremur tungumálum varðandi hitakerfi húsa við þessar aðstæður: https://www.hsveitur.is/thjonusta/vidhald-og-bilanir/abendingar-vegna-hugsanlegra-natturuhamfara/

  • Af hverju er ekki slökkt á ljósastaurum og auglýsingaskiltum í þessu ástandi?

Ljósastaurar og auglýsingaskilti nota annað kerfi en heimilin og því er ekki ástæða til að slökkva á þeim.

  • Hvaða svæði eru án hitaveitu? 

Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Vogar.

  • Hvað á ég að gera ef húsið mitt verður fyrir tjóni? 

Hafa samband við þitt tryggingarfélag sem á að gera veitt allar upplýsingar varðandi tjón.

  • Á ég að vera heima við eða á ég að fara að heiman? 

Fólki er frjálst að vera heima en minnt er á mikilvægi þess að gera ráðstafanir til að halda hita á híbýlum. Leiðbeiningar varðandi búnað og notkun hans má finna í þessu skjali.

  • Hvað getur húseigandi gert til að lágmarka skaða á eigin eignum? 

Kynda með rafmagnsofnum eða gasi, en samkvæmt leiðbeiningum orkufyrirtækja varðandi hámarksnotkun (2.5 kw).

Rétt er að minna á að kerfi húseigenda, s.n. húsveitur (raflagnir, hitalagnir og vatnslagnir) eru eign og á ábyrgð hvers húseiganda og nauðsynlegt að þeir geri það sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir eða lágmarka tjón á þessum kerfum komi til þess að náttúruhamfarir skerði aðgengi að þjónustunni.

Hér má finna gagnlegar ábendingar vegna mögulegs langtíma þjónusturofs veitukerfa vegna náttúruhamfara.

Að hverju þarf að huga ef verður heitavatnslaust – Leiðbeiningar frá Félagi pípulagningameistara og Samtökum rafverktaka.

Auglýsing

læk

Instagram