Einhverjir ráku upp stór augu þegar þeir sáu nýjasta Elko-bæklinginn en þar var verið að auglýsa ferðageislaspilara. Málið vakti athygli á samfélagsmiðlum en margir töldu eflaust að dagar spilarans væru taldir.
Nútíminn kannaði málið og í ljós kom að ferðageislarspilarinn lifir enn góðu lífi og gott betur en það. Auður Jónsdóttir markaðsfulltrúi Elko sagði í samtali við Nútímann að spilarar sem þessi hefðu verið seldir í verslunum Elko allt frá opnun. „Við byrjuðum að selja svona spilara þegar verslunin opnaði árið 1998 og höfum í raun aldrei hætt,“ sagði hún.
Það er hinsvegar sérstakt að salan virðist vera að aukast og þeir seljast nú eins og heitar lummur.
Aðspurð um hverjir það eru sem eru að kaupa þessa spilara sagði hún það mest fólk á miðjum aldri og fólk með börn en bætti við að hugsanlega væru þeir komnir aftur í tísku hjá ungu fólki. „Við höfum selt mjög mikið af þeim á þessu ári og það sem okkur þykir merkilegast er að þeir seljast betur en mp3 spilarar,“ sagði Auður að lokum.