Arnþrúður sakar blaðamann Vísis um að þiggja mútur, ærumeiðingar segir aðstoðarritstjóri

Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu, telur að tölvuþrjótar hafi brotist inn á heimasíðu útvarpsstöðvarinnar í gærkvöldi. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Arnþrúðar. Þá sakar Arnþrúður blaðamann Vísis um að þiggja mútur og vera þannig í liði með tölvuþrjótunum.

Skoðanakönnun sem var sett í gang á vef Útvarps Sögu í gærkvöldi var ekki á vegum útvarpsstöðvarinnar en þar var spurt: „Er Arnþrúður Karlsdóttir fyllibytta?“

Skoðanakönnunin er ekki lengur á forsíðu vefsins en á síðunni má engu að síður nálgast niðurstöður hennar.

„Það eru einhverjir mannhatarar hér á ferð og sennilega rasistar líka, þegar vel er að gáð. Svo merkilega vill til að Vísir.is setti þetta inn sem frétt klukkan 23 í kvöld á sama tíma og Facebooksíðan okkar var eyðilögð,“ segir Arnþrúður og hvetur fólk til að fara inn á athugasemdakerfi Vísis og spyrja um heimildarmenn.

Í athugasemd undir frétt Vísis sakar Arnþrúður Bjarka Ármannsson, blaðamann Vísis, um að þiggja mútur.

„Þetta er greinilega fyrirfram undirbúin „frétt“ hjá Vísi og skora ég á blaðamanninn, Bjarka Ármannsson að segja okkur hinum hvað hann fékk mikið greitt fyrir að gera þetta og hver greiddi honum. Ég hef skilning á að blaðamenn þurfi að verða sér útí um aukavinnu en það er almennt gerð sú krafa að sú aukavinna sé heiðarlega unnin.“

Kolbeinn Tumi Daðason, aðstoðarritstjóri 365 miðla, segir í frétt á Vísi um málið að þessar ásakanir séu vart svaraverðar þó alvarlegar megi heita og hljóti að flokkast sem ærumeiðingar.

Það vakti talsverða athygli á dögunum þegar Bubbi Morthens og hljómsveitin Ljótu hálfvitarnir bönnuðu Útvarpi Sögu að spila tónlist sína. Það gerðu þeir í kjölfarið á því að Útvarp Saga hóf að kanna á vefsíðu sinni hvort múslimum sé treystandi.

„Bann þetta gildir svo lengi sem Útvarp Saga heldur áfram að ala á fordómum og mannhatri. Skömm þeirra og heimska er algjör,“ sagði Bubbi.

Það er ömurlegt að vita til þess að fullorðið fólk sem hefur alist upp í kærleika, býst ég við, skuli þrífast í þeim andlega skugga sem liggur yfir hljóðstofu útvarpsins sögu.

Eins og Ljótu hálfvitarnir þá bannaði Bubbi útvarpsstöðinni að spila lög sem hann hefur þegar gefið út, sem og þau sem hann hljóðritar í framtíðinni.

Auglýsing

læk

Instagram