Ben Affleck á leiðinni til landsins

Hollywood-leikarinn Ben Affleck er væntanlegur til landsins. Hann sagði frá þessu í þættinum Live With Kelly í gærmorgun. Sjáðu myndbandið hér fyrir neðan.

Affleck fer með hlutverk í ofurhetjumyndinni Justice League, sem verður tekin upp að hluta á Djúpavík á Ströndum. Heimildir herma að tökur fari fram í október.

Sjá einnig: Justice League til Djúpavíkur á Ströndum, stórmynd tekin upp á Vestfjörðum í október

Tökur á myndinni hófust í apríl og Affleck sagði frá því í þættinum að hann hafi verið við tökur í London í mánuð. Zack Snyder leikstýrir myndinni og kunnugir lesa í fréttir af tökum myndarinnar að Ísland verði fyrirferðarmikið.

https://youtu.be/hOSrbmuORCg

Nútíminn greindi frá því í júlí að Justice League yrði tekin upp að hluta hér á landi. RÚV staðfesti svo í dag að tökur á stórri bandarískri kvikmynd fari fram á Djúpavík á Ströndum næsta haust.

Sjá einnig: Dýrasta mynd allra tíma tekin upp á Íslandi, Justice League í tökur hér á landi í október

True North kemur að framleiðslu myndarinnar en mikil leynd hvílir yfir verkefninu. Ásbjörn Þorgilsson, eigandi Hótels Djúpavíkur, sagði í viðtali í Bændablaðinu í vikunni að kvikmyndaframleiðandinn væri búinn að leigja hótelið í haust og að von sé á 200 manns í Djúpavík til að vinna að myndinni.

Þá segir hann að von sé á skemmtiferðaskipi sem muni hýsa starfsliðið á meðan tökum standi.

Margir stórleikarar fara með hlutverk í myndinni sem fjallar um ofurhetjur á borð við Batman, Superman, Wonder Woman, Aquaman og Flash. Á meðal leikara eru Ben Affleck, Amber Heard, Amy Adams, Jared Leto, Jesse Eisenberg, J.K. Simmons, Jeremy Irons og Willem Dafoe.

Leikarinn Julian Lewis Jones bættist nýlega í hóp leikara. Hann sagði í viðtali við Wales Online að myndin verði að öllum líkindum sú dýrasta sem gerð hefur verið.

Auglýsing

læk

Instagram