Bjóða dómsmálaráðherra 1000 evrur fyrir að segja af sér: „Framkoma ráðherrans gagnvart umsækjendum hefur einkennst af harðneskju”

Ungir Jafnaðarmenn á Íslandi hafa boðið Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra 1000 evrur fyrir afsögn hennar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í gær.

Tilkynningin kom eftir að Sigríður kynnti drög að reglugerð sem heimilar Útlendingastofnun að borga hælisleitendum sem leita hingað til lands að draga hælisumsókn sína til baka. Upphæðin sem hælisleitendum er boðið getur numið allt að 1000 evrum. Sigríður sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að það væri ódýrara fyrir íslenska ríkið að greiða fólki styrki fyrir að fara úr landi heldur en að leyfa því að dvelja hér um einhverja hríð.

Ungir jafnaðarmenn telja framkomu ráðherrans gagnvart umsækjendum einkennast af harðneskju og að þessi reglugerð sé vafasöm. Verið sé að borga fólki fyrir að afsala sér mannréttindum sínum.

„Í stað þess að borga fólki í viðkvæmri stöðu fyrir að afsala sér réttindum sínum ættu íslensk stjórnvöld að leita allra leiða til þess að hjálpa því. Okkur ber skylda til þess að bregðast við því ástandi sem ríkir í heiminum í dag og hjálpa sem flestum sem eru á flótta,” segir í tilkynningu.

Ungir jafnaðarmenn tela að ódýrara væri að greiða henni 1000 evrur fyrir að hætta en að hún sitji áfram í embætti dómsmálaráðherra. Því hefur verið sett af stað söfnun þar sem almenningi er boðið að taka þátt. Ef Sigríður þiggur ekki peningana og segir af sér munu þeir renna óskiptir til Rauða kross Íslands.

Hægt er að leggja söfnuninni lið með millifærslu á reikning Ungra jafnaðarmanna. Reikningsnúmer 0301-26-006907, kennitala 690200-3760.

Auglýsing

læk

Instagram