Bræðraást Ingós og Gumma: „Þú ert winner og ég lít upp til þín“

Bræðurnir Ingólfur Þórarinsson, einnig þekktur sem Ingó veðurguð, og Guðmundur Þórarinsson eiga ýmislegt sameiginlegt fyrir utan hið augljósa. Þeir eru báðir fótboltamenn og söngvarar — þó söngurinn hafi verið fyrirferðarmeiri hjá þeim fyrrnefnda undanfarin ár rétt eins og fótboltinn er fyrirferðarmeiri hjá þeim síðarnefnda.

Guðmundur spilar með Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni og saknar skiljanlega bróður síns sem glamrar víða á kassagítarinn þessa dagana. Í skilaboðum sem Guðmundur skildi eftir á Facebook-vegg Ingós sagðist hann líta á björtu hliðarnar, eftir tap í fyrsta leiknum sínum í Danmörku.

Við semsagt skíttöpuðum 0-3 og duttum niður í 6. sæti. 6. sæti er einmitt sætið sem þú dast út úr Idol keppninni á sínum tíma og allir afskrifuðu þig. Sjáðu þig í dag – poppkóngurinn á Íslandi og stjórnar brekkusöngnum á þjóðhátíð jafn vel og Jón Guðbrandsson stjórnaði spjallinu á bekknum á móti ÍA þegar við tryggðum okkur titilinn 2009.

Guðmundur endar á að kalla stóra bróður sinn sigurvegara.

„Þú ert winner og ég lít upp til þín og ætla líka að vera winner. Sakna þín og hlakka til að sjá þig eftir mánuð,“ segir hann.

Og Ingó svarar að bragði, segist vera meyr yfir föstudagshamborgaranum og hlakka til að fara í tívolí með bróður sínum í Köben.

„Veit ég hef ekki viðurkennt það áður, en þú vannst 8-0 einn skotóleikinn um jólin. Taktu boltann á morgun og gerðu 3-4 mörk,“ segir hann.

„Ekki vera að gefa boltann of mikið. Ég gerði það alltaf þegar ég var með Jóni Guðbrandssyni í flokki og eftir mörg þannig ár héldu margir að hann væri markaskorari en hann sá bara um að ýta honum yfir línuna eftir að ég gabbaði alla. Gangi þér vel á morgun, langbestur!“

Auglýsing

læk

Instagram