Brynjar bílasali notaði sömu aðferð og Homer Simpson: „Fólk var mjög óánægt og pirrað“

Bílasalan Betri Bílakaup hringdi á dögunum í um þúsund manns og spilaði sjálfvirka upptöku. Þetta kemur fram á Vísi. „Halló, þetta er Binni hjá Betri Bílkaupum. Má bjóða þér að gera kostakaup á nýjum eða notuðum bíl?“ sagði röddin áður en boðið var upp á að ýta á einn eða tvo til að kynnast fyrirtækinu og því sem það hefur upp á að bjóða.

Aðdáendur Simpson-fjölskyldunnar kannast við þetta markaðsbragð úr sjöunda þætti í áttundu þáttaröð. Þá notaði Homer græju frá vísindamanninum Frink sem hringdi sjálfkrafa í íbúa í Springfield til að hafa af þeim fé. Homer gekk undir dulnefninu Happy Dude en fékk að lokum makleg málagjöld.

Í samtali við Vísi segir eigandinn Brynjar Valdimarsson, Binni bílasali, að um tilraun hafi verið að ræða sem hafi mistekist hrapalega.

Þetta kom mjög illa út og ég efast um að við notum þetta. Fólk var mjög óánægt og pirrað. Ég held við notum bara hefðbundnar kynningarleiðir hér eftir.

Í fyrrnefndum Simpson-þætti var Homer dæmdur til að hringja í íbúa Springfield og biðjast afsökunar. Í umfjöllun Vísis kemur fram að aðferðin sé ólögleg þannig að það er spurning hvort Binni bílasali verði látinn fylgja fordæmi Homers.

„Ég bjóst ekki alveg við svona hörðum viðbrögðum ef ég á að segja eins og er. Þetta hefur ekki verið gert á Íslandi áður svo ég viti til. Þetta vakti ekki lukku,“ segir Binni bílasali á Vísi.

Auglýsing

læk

Instagram