Búinn að fá nóg af Pokémon-spilurum: „Ég vil gjarnan losna við þessa Pokémon-púka“

Jóhannes Viðar Bjarnason, eigandi Fjörukrárinnar, er búinn að fá nóg af Pokémon GO-spilurum sem eru tíðir gestir á Fjörukránni eftir að leikurinn kom út í byrjun júlí. Þetta kemur fram á vef DV.

Sannkallað Pokémon-æði er á Íslandi og úti um allan heim. Símaleikurinn Pokémon Go nýtur gríðarlegra vinsælda og hvert sem maður lítur sér Pokémon-þjálfara stunda veiðar. Nokkur Pokéstops-eru við Fjörukránna sem verður til þess að fólk sækir mikið í staðinn til að veiða Pokémona.

Jóhannes segir á vef DV að mikið ónæði sé af spilurunum. „Ég er með eina manneskju nánast í fullu starfi við að þrífa upp rusl sem spilarar skilja eftir sig,“ segir hann.

Gestir hafa kvartað undan því að börn og fullorðnir séu að sniglast fyrir utan hótelherbergin þeirra á öllum tímum sólarhringsins. Þeim finnst þetta stórundarlegt, það eru einstaklingar í öllum skúmaskotum í kringum hótelið.

Jóhannes skrifaði bréf til bandaríska leikjaframleiðandans Niantic, framleiðanda leiksins, til að reyna að fá Pokéstopsin við staðinn færð. Það hefur ekki enn borið árangur.

„Þetta er mjög neikvæð upplifun fyrir minn rekstur. Ég vil gjarnan losna við þessa Pokémon-púka og er að leita eftir aðstoð einhvers sem gæti hjálpað mér. Sá fengi að sjálfsögðu ókeypis máltíð á veitingastaðnum,“ segir Jóhannes Viðar á vef DV.

Auglýsing

læk

Instagram