Danskur þingmaður lenti í óþægilegum starfsmanni á Keflavíkurflugvelli: „Allt var skoðað. Já, allt!“

Danski þingmaðurinn Jan-Erik Messmann segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við eftirlitsmann í öryggishliði á Keflavíkurflugvell. Hann segir að eftirlitsmaðurinn hafi verið valdasjúkur og að hann hafi aldrei upplifað jafn óþægilega manneskju. Þá harmar hann að hafa ekki geta keypt lakkrís á flugvellinum án þess að framvísa brottfararspjaldi. Þetta kemur fram í aðsendri grein Jan-Eriks í Morgunblaðinu í dag.

Jan-Erik er fulltrúi á þjóðþingi Danmerkur og í Norðurlandaráði. Hann var staddur hér á landi í apríl til að funda með Norðurlandaráði og dvaldi í þrjá daga á Akureyri.

Í grein sinni í Morgunblaðinu segist Jan-Erik nýlega hafa farið í aðgerð á hné þar sem málmstykki var komið fyrir — skanninn sem hann gekk í gegnum á flugvellinum sendi því frá sér hljóð. Hann segir að umræddur eftirlitsmaður, sem hann segir hafa verið óþægilega afskiptasaman, hafi orðið ónotalegri í framkomu þegar hann sagði honum frá málmstykkinu í hnénu.

„Ég sýndi eftirlitsmanninum vegabréfið mitt og sagði frá því að ég væri danskur þingmaður, ekki til að losna við eftirlitið heldur í von um eitthvað vægari og liprari meðferð,“ segir Jan-Erik í grein sinni.

Þetta virtist ofbjóða eftirlitsmanninum og nú varð hann reiður. Hann leit á mig eins og grunaðan glæpamann og hóf mjög nákvæma rannsókn á fatnaði mínum og líkama. Þar sem leitin var óþægileg sagði ég aftur að það væri hnéð sem væri vandamálið.

Jan-Erik segist aldrei áður hafa upplifað jafn óþægilega manneskju. „Hann fór um buxnastrenginn og leitaði í buxunum innanverðum. Allt var skoðað. Já, allt!“ segir hann.

„Ég varð mjög leiður yfir þessari hegðun starfsmannsins og sagði að mér fyndist hann ekki sýna nægan samstarfsvilja og ganga of langt. Hann steig þá eitt skref til baka og spurði mig hvort ég hefði eitthvað meira að segja? Hvort ég vildi vera áfram á Íslandi, því að ef ég héldi áfram að þvæla þá færi ég hreinlega ekki með því flugi sem ég ætlaði.“

Danski þingmaðurinn segist hafa orðið mjög miður sín við þessa framkomu. „[Ég] upplifði þetta sem hótun glæpamanns, en baðst samt afsökunar. Hann hélt þá áfram sinni rannsókn með handskannanum og kom eftir langan tíma að hnénu. Þar lét tækið frá sér hátt hljóð,“ segir hann.

„Ég varð mjög skelkaður og hugsaði með mér að hingað til Íslands kæmi ég aldrei aftur því hér hefði verið gengið alltof langt. Eftirlitsmenn á flugvöllum hafa það verkefni að finna sprengjur, hnífa og hryðjuverkamenn. Það var augljóst að ekki var hægt að setja mig í þann bás og ég hafði strax látið vita af því hver ég væri og af hverju skanninn hefði gefið frá sér hljóð.

Það verður að gera þá kröfu til starfsmanna að þeir tali og umgangist ferðamenn og flugfarþega af virðingu og æsi sig ekki upp. Og ég segi þetta sem 69 ára gamall fulltrúi í varnarmálanefnd danska þjóðþingsins.“

Jan-Erik telur að eftirlitsmaðurinn hafi orðið reiður þegar hann sagði honum hver hann er. „Hann varð bókstaflega valdasjúkur. Hann ætlaði að sýna mér að jafnvel þó að sjálfur danski krónprinsinn hefði verið á ferð þá væri það hann sem réði hér, að ég ætti bara að bugta mig og hlýða.“

Eins og þetta væri ekki nóg þá segist Jan-Erik hafa uppgötvað þegar hann gekk að brottfararhliðinu að hann hafði gleymt að kaupa íslenskan lakkrís. „Kollegi minn, sem sá að ég átti erfitt um gang, ákvað að hjálpa mér,“ segir hann.

„Hún hljóp til baka en kom aftur tómhent 10 mínútum síðar. Hugsaðu þér, sagði hún, ég bað um poka af lakkrís en fékk ekki afgreiðslu þar sem ég gat ekki sýnt brottfararspjald.“

Jan-Erik segir ekki af hverju kollegi hans, sem var á leiðinni með honum í flug, gat ekki sýnt brottfararspjald en gagnrýnir að það hafi verið nauðsynlegt.

„Ég veit vel að sýna verður brottfararspjald við kaup á áfengi og tóbaki, en að það þurfi að gera við kaup á sælgæti furðar mig. Er það ekki of langt gengið? Á tímabilinu 2011 til 2017 hefur fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi rúmlega þrefaldast. Ég samgleðst Íslendingum yfir þeim árangri. En ferðamenn eiga skilið gott viðmót og skikkanlega meðferð.“

Auglýsing

læk

Instagram