Dómsmálaráðuneytið svarar enn ekki fyrirspurn Nútímans um uppreist æru

Níu dagar eru liðnir frá því að Nútíminn sendi fyrirspurn til dómsmálaráðuneytisins sem snýr að þeim sem hafa fengið uppreist æru á Íslandi. Rekið hefur verið á eftir svari við fyrirspurninni en enn hafa engin svör borist önnur en þau að málið sé til skoðunar í ráðuneytinu.

Fyrr í þessum mánuði bárust fréttir af því að Robert Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, hefði endurheimt lögmannsréttindi sín með dómi Hæstaréttar eftir að hafa fengið uppreist æru.

Sjá einnig: Bergur vill að Bjarni Ben rökstyðji af hverju Robert Downey fékk uppreist æru

Robert var dæmdur árið 2008 fyrir að brjóta kynferðislega gegn fjórum stúlkum á aldrinum 14 til 15 ára. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kom fram að brot Roberts voru ítrekuð og að hann hafi nýtt sér yfirburðastöðu sína í krafti aldurs síns. Allar stúlkurnar áttu við andlega og félagslega erfiðleika að stríða og sjálfsmynd þeirra því afar brothætt. Þetta vissi Robert.

Meðal annars er fjallað um uppreist æru í 85. grein almennra hegningarlaga. Þar segir:

Forseti getur og veitt manni uppreist æru, þegar að minnsta kosti 5 ár eru liðin frá því að refsing hans er að fullu úttekin, fyrnd eða gefin upp, enda færi umsækjandi sönnur, sem gildar séu metnar, á það, að hegðun hans hafi verið góð umræddan tíma.

Þegar sérstaklega stendur á, má veita uppreist æru, þó að refsitími sé svo langur sem í 2. mgr. segir, enda þótt ekki sé liðinn lengri tími en til er skilinn í 1. mgr.

Í stuttu máli uppfyllir maður skilyrði fyrir því að fá uppreist æru ef fimm ár eru liðin frá því að refsing var að fullu úttekin og ef umsækjandi færir gildar sönnur á því að hegðun hafi verið góð á umræddum tíma. Þótt talað sé um að forseti veiti uppreist æru, fer dómsmálaráðuneytið í raun með slík mál. Er það í samræmi við almennar reglur um að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt.

Málið hefur vakið mikla athygli síðustu daga. Fórnarlömb Roberts og fjölskyldur þeirra hafa stigið fram á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum og lýst óánægju sinni með að hann hafi fengið uppreist æru og lögmannsréttindin aftur.

Leikstjórinn Bergur Þór Ingólfsson, faðir stúlku sem lögmaðurinn Robert  var dæmdur fyrir að brjóta gegn kynferðislega, kallaði í aðsendri grein í Fréttablaðinu eftir rökstuðningi Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra fyrir því að Robert fékk uppreist æru. Þá hafa sjö konur hafa skorað á Sigríði Andersen, dómsmálaráðherra og Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, að endurskoða þá ákvörðun að veita Robert Downey uppreist æru.

Í umfjöllun kvennanna sjö um málið sagði að umræðan í kjölfar þess að Robert fékk lögmannsréttindin aftur hafi borið keim af því að um sé að ræða allt að sjálfvirkt ferli. Nóg sé að „fólk skili inn uppsókn, uppfylli skilyrði og fái hvítþvott frá yfirvöldum í kjölfarið.“ Þær segja þetta aftur á móti ekki svona einfalt.

„Á árunum 1995-2012 bárust 57 umsóknir um uppreist æru til ráðuneytisins. Af þeim fékk meirihlutinn, eða 31 brotamaður, synjun. Hvers vegna var þeim synjað en ekki Robert Downey? Engar frekari upplýsingar liggja fyrir, ráðuneytið neitar að veita svör um tegundir brota eða ástæður synjunar. Engin leið er því fyrir almenning að bera saman eðli mála eða leggja mat á gildi ákvarðanatökunnar,“ segir í færslu kvennanna á síðunni Konur þurfa bara að vera duglegri. 

Í kjölfar áskorunar og umfjöllunar kvennanna sendi Nútíminn eftirfarandi fyrirspurn til dómsmálaráðuneytisins: „Hefur einhverjum sem hefur sótt um uppreist æru verið synjað þrátt fyrir að uppfylla lagaleg skilyrði þess að fá uppreist æru?“

Svar hefur ekki borist, níu dögum síðar.

Auglýsing

læk

Instagram