Egill Einarsson tapaði máli fyrir Mannréttindadómstól Evrópu

Egill Einarsson, einnig þekktur sem Gillzenegger og DJ Muscleboy, tapaði í morgun máli gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Egill höfðaði meiðyrðamál gegn Sunnu Ben Guðrúnardóttur en hún sakaði hann um nauðgun og kallaði hann nauðgara á Facebook.

Ummæli Sunnu voru dæmd dauð og ómerk bæði í héraði og Hæstarétti en Egill fékk ekki miskabætur og þurfti að greiða málskostnað sjálfur.

Mannréttindadómstóll Evrópu taldi að ríkið hefði ekki brotið gegn Agli. Egill krafðist einnar milljónar króna í miskabætur en Mannréttindadómstóll Evrópu taldi brot Sunnu ekki nægilega mikið til þess að hún þyrfti að greiða Agli bætur. Þau þurfa bæði að greiða sinn eigin málskostnað í málinu.

Egill vann mál gegn íslenska ríkinu fyrir dómstólnum í nóvember á síðasta ári. Þá höfðaði Egill meiðyrðamál gegn Inga Kristjáni Sigmarssyni sem hafði birt mynd af Agli á Instagram og skrifað við hana „Fuck you rapist bastard.”

Þau ummæli voru sögð vera brot á áttundu grein mannréttindasáttmálans sem segir að sérhver maður eigi rétt á friðhelgi til einkalífs.

.

Auglýsing

læk

Instagram