Eldgosið blæs lífi í útflutning á Hrauni

Eldgosið í Holuhrauni hefur vakið heimsathygli. Ótímabært er að reyna að ná utan um landkynninguna sem jafn stórt og langlíft eldgos hefur í för með sér en ljóst er að hún gæti orðið veruleg.

Eldgosið hefur þó skilað sér á einn mælanlegan hátt: Útflutningur á Hrauni hefur tekið kipp. Og þá erum við að tala um sælgætið.

Sófus Gústavsson rekur vefverslunina Nammi.is. Þar selur hann sælgæti og annað varning til útlanda og hann er byrjaður að fyrir auknum áhuga á íslenskum vörum í kjölfar eldgossins:

Við erum að selja mikið af Hrauni, eða Lava-súkkulaði frá Góu. Fólki finnst það fyndið.

Það vissu ekki allir að Hrauni er einnig pakkað í erlendar umbúðir og kallast þá einmitt einfaldlega Lava. Sófus segir Hraunið vera að seljast til Bandaríkjanna, Bretlands, Noregs og Þýskalands.

Hann segir að aukningin sé veruleg og að kaupunum fylgi oft skilaboð þar sem fólk spyr hvort það sé ekki allt í góðu á Íslandi, hvort gosið sé að gera fólki lífið leitt og svo framvegis. „Jólaumferðin byrjar vanalega í lok október en hún hófst núna í byrjun september,“ segir Sófus sem býst við að eldgosið í Holuhrauni sé að hafa þessi jákvæðu áhrif.

Myndina af eldgosinu tók Kristján Ingi — www.kristjaningi.is

Auglýsing

læk

Instagram