Elín Helena hæðist að íslensku klisjunum

„Við hefjum hvern dag á því að baða okkur í hverunum“

Svona hefst kynningarmyndband pönkhljómsveitarinnar Elín Helena fyrir Iceland Airwaves-hátíðina, sem hefst í næstu viku.

Vignir Andri Guðmundsson, annar gítarleikari hljómsveitarinnar, heldur áfram og segir frá hvernig Elín Helena fær innblástur frá hvölum sem þeir synda með og tala við.

Myndbandið er ansi skemmtilegt. Horfið hér fyrir neðan:

Í tilkynningu frá hljómsveitinni kemur fram að Elín Helena sé „snaróð“ og hefur því „hlaðið nýju lagi í haglabyssuna og blásið til tónleikahalds til að finna brjálæðinu viðeigandi vettvang.“

Ádeilulagið “Ljúga, ljúga, ljúga, ljúga, ljúga, ljúga, ljúga, ljúga, ljúga, ljúga…” er splunkunýtt úr herbúðum hljómsveitarinnar og kemur út á safnplötunni Snarl 4 – Skært lúðar hljóma, sem er væntanlegt í lok vikunnar. Um er að ræða safndisk með 25 glænýjum lögum með þeim hljómlistaratriðum sem hæst standa á Íslandi í dag, m.a. Prinspóló, Mugison, Dj. Flugvél og geimskip og Grísalappalísa & Megas.

Elín Helena kemur fram á tónleikum á Bar 11 á föstudaginn, ásamt Kælunni miklu.

Elín Helena kemur einnig fram á Iceland Airwaves hátíðinni í tvígang. Á dagskrá hátíðarinnar eru tónleikar á Gamla gauknum á laugardeginum klukkan átta og utandagskrár mun sveitin leika í plötubúðinni Lucky Records við Hlemm klukkan sex á fimmtudeginum.

Auglýsing

læk

Instagram