Fékk viðurkenningu frá Youtube: 125 þúsund fylgjast með NBA myndböndum Baldurs

Baldur Hrafn Halldórsson fékk á dögunum senda innrammaða viðurkenningu frá Youtube þar sem honum er óskað til hamingju með að hafa náð 100 þúsund fylgjendum á myndbandasíðunni.

Baldur birtir á síðunni sinni á Youtube myndbönd úr NBA-deildinni sem hann klippir saman og talar stundum yfir. Þetta byrjaði þegar hann setti nokkur myndbönd sem sýndu mistök í leikjum í NBA og fékk nokkur hundruð áhorf.

„Fólk utan úr heimi fór að kommenta á þau um að þau vildu að ég gerði fleiri myndbönd. Ég gerði það og þannig fór boltinn að rúlla og hefur lítið stoppað síðan,“ segir hann.

Hann segir miklar pælingar fara í rásina, til dæmis að finna hvað virkar og hvað ekki.

Ég hef reynt að vera frumlegur. Svo hef ég prufað og lært alls konar tækni og aðferðir til að halda í áhorfendur og til þess að laða að nýja, svona hálfgerða markaðsetningu til að skapa rásinni sérstöðu.

Baldur segis því hafa þróað hálfgerða formúlu og keyrt hana í gegn með góður árangri. Þá hefur hjálpað að vinsælar íþróttasíður hafa birt myndböndin, til dæmis opinber síða deildarinnar og hin vinsæla Bleacher Report.

„Í dag eru áskrifendurnir yfir 100.000 og frá fleiri en 190 löndum, sem að var aldrei planið þegar ég byrjaði á þessu,“ segir Baldur.

Spurður hvort hann hafi einhverjar tekjur af myndböndunum segir hann þær afskaplega litlar.

„Ég er töluvert frá því að vera einhver atvinnumaður á Youtube. Ég hef mest verið að gera þetta mér og þá sérstaklega öðrum til skemmtunar,“ segir hann.

„Þetta hefur t.d. gefið mér vettvang til að ná til mjög margra og tjá mínar skoðanir og pælingar á NBA-deildinni við góðar undirtektir. Ef að það getur nýst mér sem stökkpallur í önnur verkefni eða störf þá yrði það alveg frábært.“

En spilar þú sjálfur körfubolta?

„Ég spila nú ekki körfubolta sjálfur, hnémeiðsli rétt eftir fermingaraldurinn stoppuðu það áður en körfuboltabakterían fór að sýna sig fyrir alvöru. Ég hef því fengið netta útrás með því að gera þessi video í staðinn.“

Auglýsing

læk

Instagram