Ferðamaður týndi drónanum á Bröttubrekku, bændur gætu rekist á tækið þegar þeir fara að leita kinda

Erlendur ferðamaður vonar eflaust að bændur á svæðinu í kringum Bröttubrekku finni ekki aðeins kindur heldur líka drónann hans þegar þeir fara í göngur á næstunni.

Maðurinn var að fljúga drónanum sínum um helgina þegar hann gaf skyndilega merki um að rafhlaðan væri að verða tóm. Sendi maðurinn tækinu þá skilaboð um að skila sér heim, sem það gerði ekki.

Ferðamaðurinn leitaði árangurslaust að tækinu í um fimm klukkustundir. Því næst fór hann á lögreglustöð og tilkynnti um hvarfið. „Núna styttist í að bændur fari til fjárleita á þessu svæði,“ segir í  færslu lögreglunnar á Vesturlandi á Facebook.

Og hver veit nema einhver gangi fram á rafmagnslausan og jafnvel laskaðan dróna á Bröttubrekkunni og komi honum til byggða.

Brattabrekka er fjallvegur á milli Mýrasýslu og Dalasýslu. Hann liggur upp frá Dalsmynni í Norðurárdal, skammt austan Bifrastar og Grábrókargíga. Réttað verður í Brekkurétt í Norðurárdal sunnudaginn 18. september kl. 10.

Auglýsing

læk

Instagram