Festust í lyftu á milli hæða á Landspítalanum á jóladag með röntgentæki, ekki enn komin í lag

Starfsfólk röntgendeildar Landspítalans við Hringbraut festist í lyftu á milli hæða á jóladag þegar það var að flytja færanlegt röntgenmyndatæki til að taka myndir af sjúklingum á gjörgæslunni.

Örskýring: Hjartaskurðlæknir og landlæknir takast á um ástandið á Landspítala

Ræsa varð út vélvirkja, hífa lyftuna á milli hæða og ná starfsfólkinu út. Lyftan er enn biluð og ekki er ljóst hvenær hún kemst í gagnið.

Hjartaskurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og gaf Nútímanum leyfi til að skrifa upp úr henni.

Hann segir að sem betur fer hafi sjúklingar ekki þurft að hírast á göngum eða kaffistofum Landspítala yfir jólin, að minnsta kosti ekki við Hringbraut. Vandamálið hafi þó verið af öðrum toga.

„Tveimur dögum síðar er lyftan enn biluð og ekki ljóst hvenær hún kemst í gagnið. Sem er bagalegt því lyftan er önnur tveggja í gamla spítalanum sem notuð er til að flytja sjúklinga til og frá gjörgæslu, en einnig niður á röntgendeildina.

Auk þess sinna lyfturnar hlutverki starfsmannalyftu. Þessi jólabilun væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að þessar lyftur eru sífellt bilandi, líkt og tölvuneiðmyndatækið á röntgendeildinni. “Systur”-lyftan bilaði í september en þá tók næstum tvær vikur að koma henna aftur í lag – töf sem eflaust skýrist af því hversu erfitt er að fá varahluti í svo gamla lyftu,“ skrifar Tómas.

Hann segir vandamálin á Landspítala ekki ný af nálinni, heldur endurtekið efni.

„Bilaðar lyftur, geymslur undir sjúklinga og ganginnlagnir endurspegla ástand á spítala sem virðist “fastur á milli hæða” og bíður eftir að vera bjargað. Lyftur og tölvusneiðmyndatæki mega hreinlega ekki bila endurtekið á sjúkrahúsi – enda öryggi sjúklinga í húfi.

Hvað hefði gerst ef mikið veikur sjúklingur hefði fests inni í lyftunni á jóladag? Hér þarf greinilega nýja skyndiúttekt landlæknisembættisins á ástandi lyftanna. Í leiðinni væri tilvalið að gera úttekt á myglu sem lifir góðu lífi á spítalanum – enda naumt skammtað til viðhalds í tillögum til fjárlaga,“ skrifar Tómas einnig.

Auglýsing

læk

Instagram