Finnar hvattir til að halda með Íslandi

Árangur íslenska karlalandsliðsins í fótbolta hefur vakið mikla athygli. Fréttir um góðan sigur Íslands á Hollandi hafa farið eins og eldur í sinu um heiminn og komið flestum á óvart. Og ekki af ósekju. Hollendingar eru með gríðarlega sterkt lið og voru í þriðja sæti á heimsmeistaramótinu í fótbolta í sumar.

Finnski grínistinn Andre Wickström stýrir þættinum Detta om detta í finnska ríkissjónvarpinu Yle. Þátturinn er á sænsku en um 300.000 Finna eru sænskumælandi.

Wickström tæklar fréttir vikunnar ásamt Stan Saanila. Í örstuttu íþróttainnslagi þáttarins spyr Saanila Wickström hvað stuðningsmenn finnska landsliðsins eigi að gera eftir 2-0 tap Finnlands gegn Rúmeníu. André svarar: Skipta um lið og lyftir upp treflinum sem sést á myndinni.

Sagan á bakvið trefilinn er sú að grínistinn Ari Eldjárn gaf Wickström hann fyrir nokkrum árum. Andre Wickström hefur nokkrum sinnum komið til Íslands og flutti t.d. uppistand í Háskólabíói árið 2010 í tengslum við þáttinn Mér er gamanmál. Þá hefur hann tvisvar komið fram með Mið-Íslandi.

Smelltu hér til að horfa á þáttinn. Ef þú skilur sænsku. Íþróttirnar hefjast á 12:00.

Auglýsing

læk

Instagram