Fjórar stórkostlegar gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur

Lóa með strá í nefi er plasthúðuð lausblaðabók eftir Einar Skúlason sem innheldur 20 kort með leiðarlýsingum um fallega staði í nágrenni Reykjavíkur.

Nútíminn fékk Einar til að benda okkur á fjóra staði sem fjallað er um í bókinni og segja okkur af hverju við eigum að leggja leið okkar þangað.

Tvo til þrjá tíma tekur að ganga þessar leiðir.

 

1. Helgafell og niður með Varmá

Í Mosfellsbæ eru margar fallegar og skemmtilegar gönguleiðir. Í þessum hring sameinast ganga upp á Helgafellið með fallegu útsýni og svo hin töfrandi leið meðfram Varmánni þar sem gróðursældin, fuglalífið og stemningin koma á óvart.

Gott er að byrja við Álafosskvosina og ganga að Helgafelli að vestanverðu og fylgja stikum yfir fellið í austurátt og þaðan niður á veginn sem liggur undir Reykjafelli. Að lokum er gengið niður með Varmá aftur í Álafosskvosina og upplagt að enda á kaffihúsinu þar.

2. Skáldaleiðin í Mosfellsdal

Helgufoss-web

Halldór Kiljan Laxness var fæddur að bænum Laxnesi í Mosfellsdal. Seinna reisti hann húsið Gljúfrastein við bakka Köldukvíslar eins og þekkt er og þar er nú safn. Skáldaleiðin er stikuð leið frá Gljúfrasteini og upp með Köldukvísl að Helgufossi og til baka.

Sagt er að skáldið hafi oft farið þessa fallegu leið í daglegum göngutúrum sínum. Þegar komið er upp í Helguhvamm eru Helgufoss og Helguhóll sérstaklega áberandi kennileiti. Helguhóll, sem einnig hefur kallast Hrafnaklettur, er myndarlegur grjóthóll og sagður hýsa huldufólk og fossinn sjálfur er tignarlegur, sérstaklega í vatnavöxtum.

3. Skálafell við Hellisheiði

skalafell-web

Skálafellið er ekki mjög hátt, en útsýnið þaðan er stórkostlegt í góðu skyggni. Það er vel þess virði að ganga þarna upp og við flestra hæfi. Mikilvægt er að halda því til haga að Skálafell er ekki á Hellisheiði.

Hið rétta er að Skálafellið er við Hellisheiði eða sunnan hennar. Útsýnið af toppnum er magnað eins og fyrr sagði og má sjá til fjalla og jökla á Suðurlandi, um Hengilssvæðið og Bláfjallasvæðið meðal annars.

4. Þyrill

Þyrill-ES-web

Þyrill er formfagur og tilkomumikill þar sem hann stendur ofan við Þyrilsnesið í botni Hvalfjarðar. Hamraveggirnir rísa hátt yfir umhverfið og undirstrika hversu ólíkur Þyrill er öðrum fjöllum á þessum slóðum.

Gengið er upp eftir stöllum í Síldarmannabrekkum og svo út með fjallinu á toppinn. Þetta er ekki erfið ganga og útsýnið er stórfenglegt yfir Botnsdalinn og Hvalfjörðinn allan.

Hér má svo sjá bókina en útgáfuhófið verður á fimmtudaginn 4. júní í Cintamani búðinni í Bankastræti.

kápa létt

Auglýsing

læk

Instagram