Fjórir frábærir punktar frá Helga Pírata um komu flóttafólks til Íslands

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að taka á móti fimmtíu flóttamönnum til að létta á miklum straumi flóttamanna til Grikklands og Ítalíu. Fólkið kemur frá Sýrlandi, Eritreu, Írak og Sómalíu og er undirbúningur fyrir móttöku þess þegar hafinn í félagsmálaráðuneytinu. Þetta kom fram á Vísi í gær og vakti gríðarlega athygli.

Sjá einnig: Ræða Helga Hrafns er loksins komin í lag Jónasar Sig: Helgi fær undirspilið sem allir biðu eftir

Virkir í athugasemdum létu ekki bíða eftir sér og fóru mikinn í ummælakerfi Vísis og Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson sá sig knúinn til að svara þeim sem mótmæltu komu flóttafólksins. Sjáðu fjóra frábæra punkta frá Helga hér fyrir neðan.

„Mér er algerlega fyrirmunað að sýna fólki samúð fyrir að eiga bágt á Íslandi, sem sýnir því ekki skilning að bjarga fólki frá stríði,“ sagði Helgi.

„Það eru meiriháttar forréttindi að hafa áhyggjur af afkomu sinni á Íslandi miðað við þær aðstæður sem þetta fólk flýr, já, líka fyrir öryrkja, aldraða, fanga, *alla* á Íslandi. Ég ætla ekki að lýsa því hvað gerist í stríði en fólk mætti hugsa sig tvisvar um áður en það byrjar að vorkenna sjálfu sér fyrir það að yfirvöld ætli að bjarga 50 manns frá mestu harmleikjum sem mannkynið þekkir.“

Hér koma svo fjórir frábærir punktar frá Helga Hrafni.

 

1. Fólksfjölgun er góð

„Ansi margir eru haldnir þeirri fullkomnu rangtrú að innflytjendur og flóttamenn, þ.e. fólksfjölgun, kosti samfélagið. Það er nákvæmlega þveröfugt. Fleira fólk þýðir meiri vinnu, ekki minni. Stærra hagkerfi er betra fyrir alla, sérstaklega fólk sem ekki getur tekið þátt í vinnumarkaðnum af einhverjum ástæðum, svosem vegna elli eða örorku. Fólksfjölgun er góð, ekki slæm. Þegar fólk gefur sér að þetta fólk komi hingað bara til að lifa á kerfinu þá einfaldlega veit það ekki hvað það er að tala um. Ég bý t.d. í miðbæ Reykjavíkur og það eru fjórir sýrlenskir matsölustaðir sem eru reknir af flóttamönnum. Flóttamenn beinlínis búa til atvinnu og auka efnahagsleg umsvif.“

2. Án innflytjenda myndi fólki fækka á Íslandi

„Þetta er síðan fyrir utan þá staðreynd að ef ekki væri fyrir innflytjendur, þá væri núna fólksfækkun í gangi á Íslandi, sem kemur sér einmitt mjög illa fyrir alla, ekki síst öryrkja, aldraða og aðra sem þurfa aðstoð ríkisins, vegna þess að eina fólkið sem fer, augljóslega, er fólkið sem getur farið. Eftir situr fólkið sem ýmist af efnahagslegum eða heilsufarslegum ástæðum getur ekki flutt úr landi.

M.ö.o. þarf ekki einu sinni að benda á hina fullkomnu þvælu sem felst í því að hafna flóttamönnum úr stríðum á þeim forsendum að hér eigi fólk svo bágt.“

3. Tilætlunarsemi hjálpar ekki

„Síðast en ekki síst þetta, og hér er kannski mikilvægasti punkturinn. Það verður að taka vel á móti flóttamönnum og hjálpa þeim að fóta sig. Ekki bara fyrir þá sjálfa heldur fyrir samfélagið líka. Það er algengt að fólk heimti að útlendingar „aðlagist“ (sem er víst pólitískt rétta orðið yfir að ætlast til þess af fólki það verði minna eins og það sjálft og meira eins og einhver annar), en tilætlunarsemi hjálpar ekki, heldur einfaldlega leiðir til þess að hjálpa þeim að gera einföldustu hluti eins og að komast í tungumálanám og vinnu. Það felst ekki ölmusa í því heldur sama almenna skynsemin og að setja krakka í grunnskóla – fólk þarf að hafa ákveðna grunnþekkingu og það er sjálfsagt að veita hana.“

4. Meira af fólki er góð þróun

„Vitiði hvað kostar samfélagið peninga? Börn. Það tekur 16-20 ár fyrir barn að verða að þegn sem actually gefur til baka í hagkerfið. En ekki fer fólk með heykvíslarnar á loft yfir barneignum vegna þess að það veit af milljarða ára reynslu af því að fjölga sér, að fjölgun er góð, ekki slæm. Meira af fólki er góð þróun, ekki vond þróun. Það eina sem við þurfum að passa, er það sama og við pössum með börnin okkar, að nýja fólkið okkar, hvort sem fæðist hér eða annars staðar, hafi sem best tækifæri til að fóta sig í lífinu. Það er það eina sem við ættum að hafa áhyggjur af.“

Auglýsing

læk

Instagram