Forseti Íslands rýfur þögnina um buffið: „Það hefur þegar komið í góðar þarfir“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur rofið þögnina um buffið sem hann var með á hausnum við afhjúpun á upplýsingaskilti um gamlar minjar á svonefndum Skansi í landi Bessastaða um helgina.

Guðni segir á Facebook-síðu sinni að buffið hafi verið gjöf frá Alzheimer-samtökunum en hann heimsótti Friðuhús, sem samtökin reka í Reykjavík, á fimmtudag. „Ég spjallaði við fólkið á staðnum og þáði fallegar gjafir, meðal annars forláta höfuðfat, fyrirtaks buff, merkt samtökunum,“ segir hann.

Það hefur þegar komið í góðar þarfir og hvet ég alla til að leggja Alzheimer-samtökunum lið. Á þeirra vegum er unnið gott starf.

Fyrir þau sem eru áhugasöm þá fæst buffið í netverslun Alzheimer-samtakanna og kostar aðeins 500 krónur. Guðni gefur í skyn að sjálft forsetabuffið gæti farið á uppboð til styrktar góðs málefnis en alþjóðadagur sykursjúkra er í dag og Guðni gaf uppáhaldsbindið sitt og skrautlegt sokkapar í fjáröflun Dropans.

„Gangi þetta vel er aldrei að vita nema ég gefi Alzheimer-buffið mitt líka til að styrkja gott málefni,“ segir forsetinn laufléttur.

Auglýsing

læk

Instagram