Fyrrverandi trommari Sólstafa kærir hljómsveitina

Guðmundur Óli Pálmason, fyrrverandi trommari þungarokkhljómsveitarinnar Sólstafir, hyggst kæra hljómsveitina fyrir ýmsar óúppgerðar sakir. Þetta kemur fram í færslu á bloggsíðu Guðmundar.

Sjá einnig: Heitasta hljómsveit landsins spilar þungarokk

Guðmundur var rekinn úr Sólstöfum fyrr á árinu og hyggst kæra meðlimi hljómsveitarinnar fyrir að nota nafn og vörumerki hljómsveitarinnar í óleyfi, að greiða honum ekki hlut af sölu á varningi sem hann segir seljast fyrir þúsundir evra, fyrir róg og mögulegan þjófnað á búnaði.

„Ég hef gert allt sem í valdi mínu stendur til að afgreiða þetta mál með sátt milli mín og fyrrverandi hljómsveitarfélaga minna en þolinmæði mín er á þrotum,“ segir Guðmundur.

Sólstafir njóta mikilla vinsælda. Nýjasta platan Ótta kom út í Evrópu í lok ágúst og fór beint á topp sölulistans á Íslandi, í 2. sæti í Finnlandi, 25. sæti í Þýskalandi, 64. sæti í Sviss og 65. sæti í Austurríki.

Hljómsveitin sendi á dögunum frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að djúpstæður persónulegur ágreiningur sem ekki verður gerður opinber sé ástæðan fyrir brotthvarfi Guðmundar.

Guðmundur biður aðdáendur hljómsveitarinnar afsökunar á því að fara með málið fyrir dómstóla.

Ég vildi ekki að þetta færi svona. Ég vildi ekki spilla upplifun ykkar á tónlistinni og draga nafn Sólstafa í svaðið.

Hann segir fyrrverandi hljómsveitarfélaga sína vera þá sem urðu til þess að hann sér sig knúinn til að kæra.

Auglýsing

læk

Instagram