Gunnar vill safna öllum sem heita Gunnar saman og stofna leynireglu Gunnara á Íslandi

Gunnar Örn Guðmundsson er einn 3.156 Íslendinga sem bera nafnið Gunnar sem fyrsta nafn. Hann langaði að sameina alla Gunnara undir einum hatti og ákvað í mars 2015 að stofna Facebook-hópinn: Gunnarar. Hópurinn inniheldur í dag 49 Gunnara en öllum sem bera nafnið Gunnar að fyrsta nafni er velkomið að óska eftir aðild.

Markmið hópsins er að virkja þann kraft sem býr í Gunnurum Íslands en stofnandinn Gunnar Örn segir í samtali við Nútímann framtíðarmöguleika hópsins mikla. „Allt of lengi höfum við verið hver í sínu horni og dempað þannig kraftinn sem býr í sameinuðum Gunnurum,“ segir hann.

Það er kominn tími til að heimurinn heyri rödd Gunnars. Það væri líka gaman ef við Gunnarar gætum myndað okkar eigin leynireglu í ætt við Frímúrara og tekið upp sérstakt Gunnars-handaband.

Hópurinn hefur stækkað jafnt og þétt en Gunnar Örn hvetur alla sem heita Gunnar til að sækja um aðild. Það komast ekki allir Gunnarar í hópinn en hver umsókn er metin hverju sinni. „Þeir sem heita Gunnar eru yfirleitt öðlingar, fyrir utan nokkur skemmd epli,“ segir Gunnar Örn.

Nokkrir frægir Gunnarar eru í hópnum en þar má nefna bardagakappann Gunnar Nelson, Gunnar Sigurðarsson fjölmiðlamann og Gunnar Jarl Jónsson knattspyrnudómara. Spurður út í fleiri Gunnara sem eiga eftir að ganga í hópinn, t.d. Gunnar í Krossinum segir Gunnar að hann megi óska eftir aðild.

Stuðningur milli Gunnara mikilvægur

Eitt af markmiðum hópsins er að hvetja þá sem heitar Gunnar til að versla vörur og þjónustu hjá öðrum Gunnurum en Gunnar Örn segir það mikilvægt til að auka vægi hópsins í samfélaginu. Innan hópsins eru menn reglulega minntir á þetta. „Um leið og ég vil minna ykkur á að versla einungis við Gunnars þegar þið eruð í majónes- eða ídýfuhugleiðingum þá langar mig að hvetja ykkur til að bjóða fleiri Gunnurum í hópinn,“ segir í tilkynningu í hópnum.

Auglýsing

læk

Instagram