Hátt leiguverð í miðbænum Airbnb að kenna

Leiguvefurinn Airbnb er langstærsti orsakavaldurinn að hækkandi leiguverði miðsvæðis í Reykjavík. Þetta segir Sölvi Blöndal hjá sjóðsstýringarfyrirtækinu GAMMA í viðtali í tímaritinu Mannlíf.

Sölvi stýrir sjóðunum GAMMA Centrum og GAMMA Eclipse sem fjárfesta fyrst og fremst í íbúðarhúsnæði miðsvæðis í Reykjavík. Flestar íbúðir sem sjóðurinn hefur fest kaup á eru um 70-100 m² að stærð, miðsvæðis í Reykjavík.

Formaður Félags fasteignasala er á meðal þeirra sem hafa áhyggjur af ítökum Gamma á íbúða- og leigumarkaði. Spurður hvort fjárfestingar sjóðsins hafi hindrað aðgang ungs fólks að fasteigna- og leigumarkaðnum segir Sölvi svo ekki vera.

Airbnb, íbúðaleiguvefurinn, [er] raunverulega langstærsti orsakavaldurinn að hækkandi leiguverði miðsvæðis í Reykjavík. Nánast allir sem vettlingi geta valdið eru að leigja út til ferðamanna. Það er mikilvægt að átta sig á því að jafnvel þó að GAMMA reki stærsta einkarekna leigufélag landsins og umsvifin séu sannarlega mikil, þá er félagið ekki markaðsráðandi aðili af neinu tagi, hvorki í fasteignaviðskipum né á leigumarkaði. En auðvitað er það okkar hlutverk að skila fjárfestum okkar ávöxtun.

Sölvi segir í viðtalinu í Mannlífi að GAMMA hafi engin áhrif á íbúðaverð.

„Það má vel vera að leiguverðið sé hátt,“ segir hann. „Persónulega finnst mér það líka en mér finnst osturinn minn og matarkarfan í heild sinni líka allt of dýr. Við viljum öll hafa það betra en það hefur ekki beint með Gamma að gera.“

Viðtalið má lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs sem gefið er út á netinu.

Auglýsing

læk

Instagram