Heklaði teppi í stíl við ráðherrann Óttarr Proppé: „Finnst hann litrík og skemmtileg manneskja“

Eftir að hafa fylgst með þingmanninum Óttarri Proppé, sem nú er orðinn heilbrigðisráðherra, síðustu mánuði ákvað Auður Björk Þórðardóttir að hekla teppi í stíl við hann.

Hún valdi gult, brúnt, svart og ljóst garn í Álafossbúðinni og hófst handa.

Óttarr hefur oft klæðst gulum jakkafötum og skartar hann brúnu skeggi. Hárið er ljóst og er hann gjarnan í svartri rúllukragapeysu undir jakkanum.

Sjá einnig: Óttarr skipti gulu fötunum út fyrir grænan jakka: „Grámyglan getur alveg verið gul“

Töluverða athygli vakti þegar hann mætti í grænum jakka í leiðtogaumræður í beinni útsendingu á RÚV eftir Alþingiskosningarnar.

Auður Björk segist hafa heillast af litasamsetningu Óttarrs. „Mér finnst hann einnig litrík og skemmtileg manneskja,“ segir hún í samtali við Nútímann.

„Þegar ég geri handverkið mitt vel ég oft litina eftir því í hvernig stuði ég er. Þennan dag sem ég fór í Álafossbúðina til að velja mér garn í næsta verk var ég bara í Proppé-stuði,“ segir Auður Björk.

Hún setti sér það markmið að ljúka við teppið áður en ný ríkisstjórn tæki við.

„Það gladdi mig að að hann hafi tekið við embætti heilbrigðisráðherra og á mánudagskvöldið þegar ég var að ganga frá endunum á teppinu ákvað ég að bíða með að klára teppið þangað til að Proppé tæki við lyklavöldunum. Ég vona að honum og nýrri ríkisstjórn vegni vel í framtíðinni,“ segir Auður Björk.

Auglýsing

læk

Instagram