Herra Bean styður Boris Johnson og ummæli hans um búrkur

Breski grínistinn Rowan Atkinson, sem Íslendingar þekkja best sem hinn klaufalega herra Bean, kemur Boris Johnson fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands til varnar eftir umdeild ummæli þess síðarnefnda um búrkur og Atkinson hvetur Johnson til þess að biðjast ekki afsökunar á ummælum sínum í aðsendu bréfi til The Times.

Boris Johnson var harðlega gagnrýndur eftir skrif sín í breska dagblaðinu Daily Telegraph þar sem hann sagði að búrkur væru „fáránlegar“ og „skrýtnar“ og að konur sem klæddust þeim litu út eins og „póstkassar“. Í kjölfar ummælanna tilkynnti Íhaldsflokkurinn að hefja ætti rannsókn á Johnson vegna brota á siðareglum flokksins.

Atkinson sagðist í greininni styðja Johnson og rétt hans til að gera grín að trúarbrögðum. „Sem manneskja sem hefur notið góðs af frelsinu til að gera grín að trúarbrögðum, þá fannst mér brandari Boris Johnson um að þeir sem klæðist búrkum líti út eins og póstkassar frekar góður.“

Hann sagði alla brandara um trúarbrögð móðga og því tilgangslaust að biðjast afsökunar á þeim. Einungis eigi að biðjast afsökunar á slæmum brandara og á þeim grundvelli sé ekki þörf á neinni afsökunarbeiðni þegar kemur að ummælum Johnson.

Atkinson hefur lengi barist gegn tilraunum til að koma í veg fyrir að gert sé grín að trúarbrögðum og fór meðal annars fyrir hópi rithöfunda og leikara sem lögðust gegn frumvarpi þar sem banna átti að hvatt væri til haturs gegn trúarbrögðum.

Auglýsing

læk

Instagram