Hildur Sverris svarar Degi, ekki stór orð heldur sjálfsögð

Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði um helgina að borgarstjóri hlyti að íhuga afsögn sína vegna samþykktar tillögunnar að sniðganga vörur frá Ísrael.

Sjá einnig: Örskýring: Reykjavíkurborg sniðgengur vörur frá Ísrael

Í viðtali í Fréttablaðinu segist Dagur ekki hafa íhugað að segja af sér.

Ég hef viðurkennt að undirbúningi hafi verið áfátt og tek ábyrgð á því með tillögu um að fyrri samþykkt verði dregin til baka. Ekki verða tekin frekari skref fyrr en eftir nauðsynlegt samráð. Mér finnst þetta býsna stór orð hjá Hildi. Ég verð að segja það.

Hildur Sverrisdóttir svarar Degi á Facebook-síðu sinni í dag. Hún segir ummæli Dags áhugaverð.

„Það verður að teljast merkilegt að í þessu risavaxna klúðri telji borgarstjóri að hann þurfi ekki einu sinni að íhuga hvernig hann getur best axlað sína ábyrgð til að stemma stigu við skaðanum sem þetta illa unna mál hefur valdið,“ segir hún.

Hún segir að hann sé maður að meiri að biðjast „nokkurn veginn“ afsökunar með því að segjast vera sjálfum sér reiður og ætla að draga tillöguna eins og hún stendur til baka að einhverju leyti.

„Hann hefur reyndar gert talsvert af því að biðjast afsökunar og þykja leitt að hlutir séu ekki nógu vel unnir, og er þar nærtækt að nefna til dæmis ferðaþjónustu fatlaðra og risavaxið tap á árshlutareikningi borgarsjóðs sem ekki sér fyrir endann á,“ segir hún og bendir á að hún sé ekki að krefjast þess að hann segi af sér.

„Ef borgarstjóri metur það sem sagt þannig að það sé alltaf nóg að þykja leitt að meirihlutinn standi sig ekki betur án þess að axla nokkra aðra ábyrgð þá verður hann að eiga það við sig.

[…]En að benda á að borgarstjóri, í hlutverki sínu sem æðsti valdhafi borgarinnar í þessu máli, eigi að íhuga hvernig best sé að axla þá pólitísku ábyrgð sína nógu sannfærandi er ekki stóryrt – það er sjálfsagt.“

Auglýsing

læk

Instagram