Hjördís er 78 ára með gervihné og dreymir um að æfa crossfit: „Núna get ég allt“

Hjördís Jónsdóttir er 78 ára og langar að prófa að crossfit. Hún er með tvær gervimjaðmir og það er ekki langt síðan hún fékk  gervihné en þessar vikurnar vinnur hún ásamt sjúkraþjálfaranum sínum í því að láta drauminn rætast.

Undirbúningurinn gengur ljómandi vel og bætir Hjördís sífellt þyngri lóðum á stöngina. Enda finnst henni skemmtilegast við þjálfunina að lyfta lóðum. Sjáðu Hjördís taka réttstöðulyftu hér fyrir ofan.

Þórhallur Guðmundsson, sjúkraþjálfari hjá Eflingu sjúkraþjálfun á Akureyri, þjálfar Hjördísi og hefur fulla trú á henni. Hann segir að hún sé mjög jákvæð og það hjálpi mikið. „Ég held að hún hugsi stundum að ég sé brjálaður þegar ég set fleiri lóð á stöngina. Hún trúir mér ekki alltaf en svo kemur yfirleitt í ljós að hún ræður alveg við þetta,“ segir hann.

Hjördís þekkir engan sem hefur æft crossfit og tók ákvörðunina því upp á eigin spýtur. Hún segist í samtali við Nútímann hafa valið þessa íþrótt í von um að halda líkamanum í góðu standi.

Ég vil bara halda líkamanum mínum í góðu formi, eins góðu og hægt er þegar maður er kominn á þennan aldur. Ég vil bara fara og styrkja líkamann virkilega vel, það gerir maður í svona lyftingum.

Hjördís er mjög ánægð með Þórhall og segir hann vera sérstaklega skemmtilegan. Hún hefur ekki getað hreyft sig almennilega síðustu ár þar sem hún var slæm í hnénu. Eftir að hafa farið í aðgerð og fengið gervihné og kynnst Þórhalli er staðan allt önnur. „Núna get ég allt,“ segir Hjördís.

Þórhallur fékk leyfi hjá Hjördísi til að birta myndband af henni þar sem hún sést gera réttstöðulyftu á Facebook-síðu Eflingar. Crossfit Hamar á Akureyri var ekki lengi að bregðast við og skrifaði einn starfsmaðurinn í athugasemd við færsluna að Hjördís væri velkomin að koma og prófa þegar hún væri tilbúin.

Vinna í að hún geti tekið dýpri hnébeygjur

Þórhallur segir að þau Hjördís þurfi að huga að hreyfanleika, styrk, tækni og hraða. Fyrst vinni þau í hreyfanleikanum, ofan á það byggja þau styrk og því næst vinni þau með tækni og hraða. „Það er grundvöllurinn í mörgum af þessum æfingum í crossfit. Við erum bara að búa til grunninn, að hún hafi hreyfanleikann,“ segir Þórhallur og útskýrir að fólk sé oft fljótt að styrkjast en mikilvægt sé að huga einnig að hreyfanleikanum.

Þar sem Hjördís er búin að fara í aðgerð á hné og fá gervihné þarf sérstaklega að huga að hreyfanleika þess. „Við erum að vinna í því að hún geti beygt hnéð nógu mikið, svo hún komist í dýpri hnébeygjur,“ segir Þórhallur.

Þessa dagana eru þau að vinna í hinum svokölluðu thrusterum þar sem gerð er hnébeygja með lóðum sem er síðan þrýst upp fyrir höfuð. Næsta verkefni er undirbúa Hjördísi til þess að geta gert upphífingar. „Við höfum verið að vinna í hreyfanleika í öxlum til þess að hún hangi ekki liðnum sjálfum þegar hún er í neðstu stöðu. Hún er að verða komin með hreyfanleikann sem þarf og þá getum við unnið í því að byggja upp styrkinn,“ útskýrir Þórhallur.

Hann hefur fulla trú á því að Hjördís muni fara á sína fyrstu æfingu í crossfit áður en langt um líður. „Við erum með frábærar crossfitstöðvar á Akureyri, mjög flotta þjálfara og við höfum ekki verið í vandræðum með að vinna með þeim. Ég ber mikið traust til þjálfannna í crossfit á Akureyri. Hjördís kemur ekki til með að taka Fran tíma á næstunni en það er alltaf hægt að skala þessar æfingar niður þannig að hún geti tekið þátt og verið með í öllum æfingum,“ segir Þórhallur. Fran er æfing í crossfit þar sem æfingarnar upphífingar og thrusterar eru gerðar til skiptis.

Auglýsing

læk

Instagram