Hlustendur töldu að antí-femínistinn á Rás 2 væri leikinn: „Þeim var fúlasta alvara“

Stjórnendur Síðdegisútvarpsins á Rás 2 fengu fyrirspurnir um hvort stúlkan sem sagði konur vita ekki neitt væri leikin. Ummæli stúlkunnar fengu vængi eftir að Nútíminn greip þau á lofti og hafa vakið mikla athygli í dag. Hægt er að hlusta á ummælin neðar í fréttinni.

Sjá einnig: „Konur vita ekki neitt“

„Við höfum fengið fyrirspurnir um hvort þetta væri leikið og svo var ekki,“ sagði Bergsteinn Sigurðsson, einn af stjórnendum Síðdegisútvarpsins á Rás 2 í umræðum um ummælin í dag.

Útvarpskonan Björg Magnúsdóttir sagðist hafa setið heillengi með stúlkunum eftir viðtalið til að fá botn í málið. „Þeim var fúlasta alvara,“ sagði hún.

Eygló Hilmarsdóttir leiklistarnemi og Sandra Gísladóttir, starfsmaður Hins hússins, ræddu málið í Síðdegisútvarpinu í dag. Þær voru meðal annars spurðar hvort þetta væri útbreidd skoðun á meðal ungs fólks.

„Ég myndi ekki segja að þetta væri stór hluti. En ég held að þetta sé klárlega viðhorf einhvers staðar og það er frábært að það komi upp á yfirborðið því að þá getum við rætt það,“ sagði Sandra.

Það sem er merkilegt við þessa klippu er að hún segir að hún viti ekkert um þetta. Hefur enga skoðun á hver er forseti en trúir samt ekki á að konur geti sinnt þessu hlutverki.

Eygló sagðist telja að þetta væri ekki vinsæl skoðun. „Maður er kannski í hópi sem hefur svipaðar skoðanir og maður sjálfur. Þess vegna hélt ég kannski að þessi stelpa væri að grínast.“

Spurð hvort það sé skortur á fyrirmyndum sagði Eygló að það væri fullt af flottum konum fyrirmyndir í fjölmiðlum og stjórnmálum. „Mér finnst karlarnir allir hálfgerðir lúðar og konurnar miklu meiri töffarar.“

Umrædd ummæli má heyra hér fyrir neðan.

Auglýsing

læk

Instagram