Ísland pakkaði Tyrklandi saman og færðist einu skrefi nær HM í Rússlandi

Ísland hreinlega pakkaði Tyrklandi saman 0-3 í frábærum leik í Eskisehir í kvöld. Sigurinn þýðir að Ísland færist skrefi nær heimsmeistaramótinu sem fer fram í Rússlandi á næsta ári. 

Það voru kantmennirnir Jóhann Berg og Birkir Bjarnason sem nánast gengu frá leiknum í fyrri hálfleik og skoruðu tvö mörk áður en liðin gengu til hálfleiks. Jóhann Berg kom Íslandi yfir á 32. mínútu og sjö mínútum síðar bætti Birkir öðru marki við.

Varnarmaðurinn Kári Árnason skoraði þriðja mark Íslands eftir hornspyrnu þegar seinni hálfleikurinn var aðeins fimm mínútna gamall og rak síðasta naglann í kistu Tyrkja. Tyrkir reyndu að laga stöðuna í síðari hálfleik en án árangurs, lokatölur 0-3.

Úrslitin þýða að Ísland er í góðri stöðu fyrir leikinn gegn Kósovó sem fram fer á Laugardalsvelli á mánudaginn þar sem liðið getur með sigri tryggt farseðilinn til Rússlands.

Auglýsing

læk

Instagram