Jón Gnarr líkir Facebook-fríinu við að vera á sérstöku mataræði: „Svipað og vera ekki með farsíma“

Jón Gnarr sneri aftur á Facebook í dag eftir að hafa verið í fríi frá samfélagsmiðlinum frá 5. janúar. Hann segir að það hafa verið svolítið skrítið að vera ekki á Facebook — svipað og að vera ekki með farsíma.

Í endurkomufærslu sinni segir Jón að það hafi hentað honum ágætlega að vera ekki á Facebook. „Það er samt líka soldið skrítið,“ segir hann. „Það er eiginlega eins og að vera á einhverju sérstöku mataræði eða fylgja ströngum lífsreglum. Ég missi af mjög mörgum umræðum.“

Jón fer með hlutverk í leikritinu Slá í gegn í Þjóðleikhúsinu og segir að samskiptin þar fari mikið til fram í gegnum hóp á Facebook. „Það fer allt fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Facebook er orðið svo mikið lykilatriði í samskiptum að vera ekki á því er svipað og vera ekki með farsíma,“ segir hann.

Jón hefur nóg að gera þessa dagana og segist í færslu sinni hreinlega vera á kafi í nokkrum verkefnum. „Ég er að vinna að bók sem áætlað er að komi út á þarnæsta ári. Ég er að skrifa leikrit fyrir Þjóðleikhúsið sem áætlað er að setja upp næsta vetur og svo er ég með 20 ára afmælissýningu á Ég var einu sinni nörd í Hörpu 6 október nk. — sem er farið að valda mér töluverðri streitu,“ segir hann.

„Ég var með útvarpsþætti á Rás 2, sem eru nú hættir. Svo er ég náttúrlega að leika í söngleiknum Slá í gegn. Í vikunni byrja ég svo í nýju verkefni sem er mjög ólíkt því sem ég hef gert áður og ég hlakka mikið til að segja meira frá því.“

Auglýsing

læk

Instagram