Kanye West ítrekað hætt við að mæta í bílakarókí hjá Corden: „Hefur kostað okkur milljónir”

Spjallþáttastjórnandinn James Corden hefur greint frá því að tónlistarmaðurinn vinsæli Kanye West hafi tvisvar, jafnvel þrisvar sinnum ætlað að mæta í bílakarókí í þætti hans en alltaf hætt við. Bílakarókí er einn vinsælasti liðurinn í spjallþætti Corden en tónlistarfólk á borð við Paul McCartney, Justin Bieber, Lady Gaga og Adele hefur tekið þátt.

Corden greindi frá þessu í viðtali við Kris Jenner, tengdamóður Kanye West, í gær. Hún spurði Corden hvers vegna West hefði aldrei komið í bílakarókí til hans og Corden sagði að það væri ekki erfitt að svara því.

Sjá einnig: Jón Jónsson og Friðrik Dór kíktu á rúntinn og hentu í besta bílakarókí sem þú munt sjá

„Við höfum reynt. Hann hefur hætt við tvisvar, jafnvel þrisvar sinnum. Einu sinni hætti hann við þegar ég var að beygja að húsinu hans að sækja hann. Þá var mér tilkynnt það að hann væri ekki í stuði á því augnabliki, við myndum gera þetta síðar.”

Corden segir að þetta hafi kostað þáttinn gífurlegar fjárhæðir en West hafi gefið honum gjafir í staðinn.

„Hann sendi mér fallegar gjafir, ég fékk ótrúlegan blómavasa og par af Yeezy skóm. Fólk sagði mér að þessir skór væru sko rosalega dýrir. Ég svaraði og sagði: Já þeir kostuðu þáttinn minn hátt í 45 þúsund dali.”

Þrátt fyrir að Kanye hafi ekki látið sjá sig í bílakarókí enn er von á góðum gestum þangað. Corden greindi frá því að á næstunni muni Ariana Grande koma fram í bílakarókí með honum en hún gefur út nýja plötu í mánuðinum.

Auglýsing

læk

Instagram