Kanye West var á tónleikum Justin Bieber í LA þegar íslenskir fjölmiðlar sögðu hann vera á Íslandi

Kanye West skemmti sér ásamt Kardashian-systrunum í Los Angeles í gærkvöldi á sama tíma og tveir íslenskir fjölmiðlar töldu hann vera staddan hér á landi að taka upp tónlistarmyndband.

Mbl.is greindi frá því á laugardag að Kanye West væri væntanlegur til landsins á sunnudag. Fram kom á vefnum að hann ætlaði að taka upp tónlistarmyndband á Íslandi og að myndi gista á 101 Hóteli.

Þá greindi afþreyingarvefurinn Jahá.is frá því í gær að Kanye væri staddur hér á landi og sagðist hafa fengið það staðfest hjá heimildarmanni sínum.

Þau sem fylgja Kim Kardashian, eiginkonu og barnsmóður Kanye West, sáu að hann skemmti sér vel á tónleikum Justin Bieber í Staples Center í Los Angeles í gærkvöldi.

Þá kemur fram á vef tímaritsins Hello! að með í för hafi verið Kourtney Kardashian, Malika Haqq, vinur hennar og rapparinn Big Sean. Bieber, sem er væntanlegur til landsins í sumar, sendi svo Kanye kveðju á Twitter eftir tónleikana.

Kanye kemur kannski bara seinna til landsins.

Auglýsing

læk

Instagram